Sérstaka veiðigjaldið, lækkun á verði þorsks á fiskmörkuðum og fleiri þættir hafa gert útgerð krókabáta erfiða síðustu mánuði.
„Því er ekki að neita að ýmsir sem standa í útgerð smábáta sjá ekki aðra möguleika í stöðunni en að selja heimildir og hætta útgerð,“ segir Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda, í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag. Hann segir það þó ekki heiglum hent því veiðiheimildir hafi lækkað í verði.
LS hefur fundað með veiðigjaldsnefnd og óskað breytinga á sérstöku veiðigjaldi. Örn segir það blasa við að ekki sé hægt að miða við afkomu stærstu frystiskipa þegar veiðigjöld séu reiknuð á krókabáta. Ólíku sé saman að jafna og segist Örn gera sér vonir um að nefndin geri tillögu til stjórnvalda um lagabreytingar.