Tveir segjast saklausir

Nauðgun sex karla á konu í strætisvagni í Nýju-Delí á …
Nauðgun sex karla á konu í strætisvagni í Nýju-Delí á Indlandi hefur verið mótmælt víða. AFP

Tveir af karlmönnunum fimm, sem sakaðir um að hafa nauðgað 23 ára gamalli konu í strætisvagni í Nýju-Delí á Indlandi, ætla að lýsa yfir sakleysi sínu. Verjandi þeirra segir að ekkert hafi komið fram sem sanni sekt þeirra.

Saksóknarar segja að blóðblettir sem fundust á fatnaði mannanna sanni að þeir hafi verið á vettvangi. Lögmaður þeirra, M.L. Sharma, segir að hann hafi ýmislegt að athuga við meðferð lögreglu á sönnunargögnum, án þess að fara nánar út í það.

Annar þessara tveggja manna er bróðir bílstjórans sem sat við stýri í strætisvagninum þetta örlagaríka kvöld hinn 16. desember síðastliðinn.

Konunni var nauðgað af sex karlmönnum, en að öllum líkindum verður réttað yfir einum þeirra við unglingadómstól vegna ungs aldurs hans.

Hinir fimm eru nú vistaðir í Tihar-öryggisfangelsinu. 

Konan lést af áverkum, sem hún hlaut við árásina. Málið hefur vakið gríðarlega mikla athygli bæði á Indlandi og víða um heim og er sagt varpa ljósi á bága stöðu kvenna í landinu.

mbl.is