Segir lögreglu þvinga fram játningar

Ofbeldi gegn konum hefur verið mótmælt harðlega í Indlandi að …
Ofbeldi gegn konum hefur verið mótmælt harðlega í Indlandi að undanförnu AFP

Lögmaður þriggja af þeim mönnum sem eru ákærðir fyrir að hafa myrt og nauðgað konu í strætisvagni í höfuðborg Indlands, Nýju-Delí, segir að lögregla hafi beitt ofbeldi til þess að þvinga fram játningar hjá mönnunum.

Réttarhöld í máli mannanna standa nú yfir og ræddi lögmaðurinn, M.L. Sharma, við AFP fréttastofuna á leið í réttarsalinn í morgun.

Öllum ákærðu hefur verið misþyrmt harkalega af lögreglu og mikilli hörku hefur verið beitt til þess að fá þá til þess að segja það sem hentar ákæruvaldinu, segir Sharma. „Skjólstæðingar mínir hafa verið þvingaðir til þess að játa á sig glæp sem þeir frömdu ekki,“ segir Sharma.

Talsmaður lögreglunnar neitaði að tjá sig um orð lögmannsins þegar eftir því var leitað í morgun.

Tveir af fimm Indverjum sem nú eru fyrir rétti í Nýju-Delí, sakaðir um að nauðga fyrir þrem vikum ungri konu í strætisvagni og misþyrma henni svo að hún lést, vísa öllum ákærum á bug. Sjötti maðurinn er sennilega sautján ára og verður fjallað um mál hans hjá sérstökum dómstóli fyrir unglinga, að sögn AFP-fréttastofunnar.

Málið hefur valdið mikilli ólgu í landinu og ýtt undir kröfur um að lögreglan taki fast á nauðgurum. Ummæli þekktra karla hafa enn aukið reiðina. Asharam, þekktur trúarleiðtogi hindúa, segir að unga konan sem lést hefði getað komið í veg fyrir glæpinn með því að biðjast vægðar. Ábyrgðin liggi ekki síður hjá henni en nauðgurunum. Asharam, sem einnig gengur undir nafninu Bapu (faðir), á sér marga fylgismenn.

„Þessi harmleikur hefði ekki orðið ef hún hefði kallað nafn guðs og fleygt sér fyrir fætur árásarmannanna. Það voru ekki bara þeir sem breyttu rangt,“ sagði Asharam.

Karlremba og margvíslegur hrottaskapur í garð kvenna eru afar útbreidd í landinu að sögn margra heimildarmanna en fram til þessa hefur lítið verið fjallað um vandann opinberlega. Ungar konur í stórborgum eru yfirleitt mjög smeykar við að ganga einar á götum úti enda hópnauðganir afar algengar og sjaldgæft að óbótamönnunum sé refsað. En opinberar tölur sýna að skráðum nauðgunum fjölgaði úr 2.487 fyrir um fjörutíu árum í 24.206 árið 2011.

mbl.is