Saksóknarar í máli gegn fimm karlmönnum, sem eru sakaðir um hafa nauðgað og misþyrmt 23 ára gamalli konu í Nýju-Delí, fara fram á að þeir verði hafðir í járnum á meðan þeir eru í haldi enda séu þeir stórhættulegir menn.
Fimmmenningarnir hafa hingað til ekki verið í handjárnum í dómsalnum en þeir komu fyrir dómara í dag. Var réttarhöldum frestað til fimmtudags en réttarhöldin fara fram fyrir luktum dyrum.
Rajesh Mohan saksóknari segir í samtali við fréttamenn í dag að mennirnir fimm hafi framið hryllilegan glæp, framið hópnauðgun og myrt konuna. Því þurfi að hafa þá í járnum svo þeir ráðist ekki á neinn í fangelsinu eða í dómsalnum. Hann segir að saksóknaraembættið hafi formlega óskað eftir þessu.
Mjög harðar reglur gilda í Indlandi varðandi það að setja fanga í járn. Er það einungis heimilt ef óttast er að viðkomandi eigi eftir að ráðast á samfanga eða reyni að flýja.