Barnaníðingur versti stimpillinn

Frá fundi allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis í morgun.
Frá fundi allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis í morgun. Styrmir Kári

„Barnaníðingur er einhver versti stimpill sem hægt er að fá á sig í dag. Við verðum að hafa trú á að hægt sé að hjálpa þessu fólki, verðum að fá fólk til að gefa sig fram. Það gerist ekki með svona umræðu,“ sagði Svala Ísfeld Ólafsdóttir, dósent við lagadeild Háskólans í Reykjavík, á fundi allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis í morgun en þar voru kynferðisbrot gegn börnum til umræðu.

Svala sagði að umræðan eftir þátt Kastljóss Ríkisútvarpsins um barnaníð hafi verið mjög hatursfull. „Við erum á hættulegum slóðum og þetta getur haft fælingarmátt fyrir þolendur. Þeir heyra þetta og forðast frekar að kæra ef þeir óttast að örlög geranda verði svona eins og heyrist í opinberri umræðu,“ sagði Svala og átti þá fórnarlömb sem tengjast ofbeldismanni fjölskylduböndum.

Starfsmaður með ímynd trúnaðarvinar

Hún velti upp spurningum um hvað hægt sé að gera til að hjálpa þeim börnum sem verða fyrir kynferðislegu ofbeldi, létta á áhyggjum þeirra og fá þau til að segja frá brotum sem þau vilja ekki segja frá. Hún sagðist sjá fyrir sér að það væri innan skólanna þar sem best væri að byrja. „Skoða ætti hvort hægt sé að koma upp starfsmanni innan skóla sem hefði ímynd trúnaðarvinar, væri ekki sálfræðingur eða skólahjúkrunarfræðingur og hefði í raun ekkert fráhrindandi formlegt yfirbragð. Hann væri trúnaðarvinur og börnin viti að það sem honum er sagt fari ekki lengra.“

Svala sagði að með því móti gætu börnin létt á sér og fengið stuðning og leiðsögn. Einnig stakk hún upp á að hægt væri að koma á fót hjálparlínu. „Það eru margar sálrænar hindranir hjá þeim sem hafa grun eða vitneskju og margir sem þora ekki að stíga fram. Svona er hægt að fá upplýsingar upp á borðið, því við erum með gott kerfi þegar upplýsingarnar eru komnar fram.“

Jafnframt sagði hún að koma ætti á fót miðlægum gagnagrunni með nöfnum þeirra sem hafa verið dæmdir fyrir kynferðisbrot gegn börnum og þeim sem bornir eru sökum og brot staðfest en fyrnd. „Því skyldu nöfn þeirra ekki vera í gagnagrunni þar sem hægt er að fletta upp?“ spurði Svala en ítrekaði að aðgengið að honum þyrfti að lúta ströngum reglum.

mbl.is

Bloggað um fréttina