Utanríkisráðherra sagði við umræðu á Alþingi í dag að staðan í aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið væri góð, góð en margslungin. Ákvörðun um að hægja á ferlinu yrði aðeins til þess að seinka vinnu við fjóra kafla í röska þrjá mánuði. Þingmenn kölluðu ákvörðunina sjónarspil og leikþátt.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, hóf umræðuna og sagði að í fyrstu hefði verið látið líta svo út að ákvörðunin væri eðlilegt framhald að viðræðuferlinu. Því hafi utanríkisráðherra fagnað og sagt ákvörðunina skynsamlega. En í dag hafi Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra greint frá því að ef Alþingi hefði samþykkt tillögu Jóns Bjarnasonar um að fresta viðræðum hefði það leitt til stjórnarslita.
Bjarni sagði mikilvægt að vita hver staðan verði eftir kosningar, það verði að tala skýrum orðum um stöðuna. Auk þess hafi fyrst verið viðurkennt að ástæða þess að ekki sé búið að fá niðurstöðu í erfiða kafla séu innanbúðavandamál og heimatilbúinn vandi. „Það var við því að búast að þetta yrði eintómt klúður og hægagangur og uppnám á hverju horni. Það er það sem við höfum séð og upplifað.“
Hann benti á að Ísland hefði staðið í viðræðum við ESB í tvö og hálft ár, lengur en nokkurt annað EFTA-ríki. „Er hægt að halda áfram á þessum forsendum, með flokki sem vill ekki ganga inn?“ spurði Bjarni og einnig hvort það þurfi ekki að vera skýr meirihluti á hverju þjóðþingi til þess að ganga í ESB.
Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra var til svara. Hann sagði í ákvörðun ríkisstjórnarinnar felast að ekki verði unnið að samningsafstöðu Íslands í köflunum um landbúnað og sjávarútveg á næstu þremur mánuðum. „Hún seinkar vinnu í þrjá mánuði. [...] Í þessari ákvörðun felst ekki formlegt hlé eða frestun, það er hægt á ferlinu tímabundið.“
Hann sagði vinnu halda áfram við 18 kafla af þeim 22 sem eftir eru. „Mestu skiptir að við erum farin að sjá til lands og aðeins lokaáfanginn eftir. Bara samningsafstaða eftir í fjórum köflum.“
Þá sagði Össur stutt í kosningar og því væri eðlilegt að þingið tækist ekki á um erfiðustu kaflana rétt fyrir kosningar. Það væri óábyrgt. „Þá er það mín von að aðildarferlið verði ekki að pólitísku bitbeini í kosningabaráttunni.“
Ennfremur sagði Össur það í anda lýðræðis að ný ríkisstjórn, hver sem hún verði, fái að setja sitt mark á grundvallarmálaflokkana, þ.e. sjó og land.
Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra greindi frá því að hann hefði talað fyrir því í ríkisstjórninni að lýðræðislegt væri að spyrja þjóðina fyrst hvort hún vildi leggja inn umsókn um aðild að ESB. Því hefði Samfylking hins vegar hafnað. Þá hefði hann að undanförnu talað fyrir því að útkljá málið fyrr og fá fram þjóðarvilja en fyrir því hefði ekki verið hljómgrunnur.
„En nú er kjörtímabilið senn á enda runnið og menn þurfa að gera upp við sig hvort eigi að leita uppi þjóðarvilja eða hundsa hann áfram.“
Ásmundur Einar Daðason, þingmaður Framsóknarflokks, sagði eins og margir þingmenn við umræðuna að ákvörðun ríkisstjórnarinnar væri sjónarspil og leikþáttur. „Hverjar eru raunverulegar breytingar? [...] Það á að halda öllu áfram. Það er engin breyting.“
Hann sagði þetta sýndarleikrit sem sett hefði verið upp eftir að Jón Bjarnason lagði fram tillögu sína.