Evrópusambandið og Noregur funda þessa dagana á Írlandi um veiðar á makríl og fleiri tegundum og er búist við að fundinum ljúki á morgun.
Á fundi í desember varð ekki niðurstaða um veiðar á þessu ári, en undanfarin ár hafa ESB og Noregur tekið sér um 90% af heildarkvótanum.
Í árslok 2011 var það eitt af síðustu embættisverkum Jóns Bjarnasonar, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra, að ákveða heildarkvóta í makríl. Árið áður tilkynnti hann makrílkvótann 17. desember, en síðustu ár hafa makrílveiðar hafist í júníbyrjun.
Á Alþingi í fyrradag gagnrýndi Jón eftirmann sinn, Steingrím J. Sigfússon atvinnuvegaráðherra, fyrir að vera ekki búinn að gefa út aflamark íslenskra skipa í makríl á þessu ári. Sagði Jón að Steingrímur hefði „dregið og dregið að gefa út makrílkvóta fyrir Íslendinga.“.