„Sú ákvörðun að ákvarða hlutdeild okkar í makrílstofninum með hefðbundnum hætti var einnig skynsamlegt skref þar sem mikilvægt var að gera ekkert sem væri til þess fallið að verðlauna óábyrga ofveiði Íslendinga og Færeyinga á stofninum,“ segir Bertie Armstrong, framkvæmdastjóri Samtaka skoskra útgerðarmanna, á vefsíðu samtakanna í dag. Sjávarútvegsráðherra Skotlands, Richard Lochhead, hefur látið hliðstæð ummæli falla í samtölum við fjölmiðla í dag.
Samkomulag náðist í morgun á milli Evrópusambandsins og Noregs um skiptingu á deilistofnum á árinu 2013 en hluti samkomulagsins er að sambandið og Norðmenn taki sér sem fyrr rúmlega 90% af ráðlagðri heildarveiði úr makrílstofninum. Steingrímur J. Sigfússon, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, hefur sent frá yfirlýsingu í kjölfar þess þar sem sú ákvörðun er sögð valda vonbrigðum.
Samkomulagið á milli Evrópusambandsins og Noregs felur í sér aukinn kvóta úr nokkrum fiskstofnum í Norðursjó, þar á meðal ýsu, skarkola, ufsa og síld. Þorskkvótinn er hins vegar óbreyttur frá því sem verið hefur frá árinu 2011. Þá var einnig samið um aukna veiði á ufsa á miðunum vestur af Skotlandi.