Vísa ætti makríldeilunni til Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndarinnar (NEAFC) og láta hana skera úr henni að mati breska blaðamannsins Charles Clovers sem þekktur er fyrir skrif sín um umhverfismál.
Clover bendir á það í vikulegum pistli sínum í breska dagblaðinu Sunday Times að allir aðilar makríldeilunnar, Ísland, Noregur, Færeyjar og Evrópusambandið, séu einnig aðilar að NEAFC. Nefndin geti skorið úr slíkum deilumálum á tiltölulega skömmum tíma. Hins vegar hafi aldrei komið til þess að deilumálum hafi verið vísað til hennar.
Hann veltir því fyrir sér hvað valdi því og segist hafa af því fregnir að NEAFC sé í seinni tíð orðin að samkvæmisklúbbi embættismanna sem beri enga ábyrgð og reyni í lengstu lög að forðast það að taka erfiðar ákvarðanir.
Clover segir að Richard Benyon, sjávarútvegsráðherra Bretlands, og Maria Damanaki, sjávarútvegsstjóri Evrópusambandsins, ættu að kyngja stoltinu, koma með krók á móti bragði í samskiptum við Íslendinga og reyna að fá sambandið til þess að vísa makríldeilunni til NEAFC. Með því tækju þau forystu í málinu.