Krafist verður dauðarefsingar

Frá mótmælum í Nýju Delí 16. janúar síðastliðinn.
Frá mótmælum í Nýju Delí 16. janúar síðastliðinn. AFP

Fimm karlmenn á aldrinum 19-35 ára koma fyrir rétt í Nýju Delí höfuðborg Indlands í dag ákærðir fyrir að hafa nauðgað ungri indverskri konu í strætisvagni í borginni um miðjan desember síðastliðinn en konan lést í kjölfarið af meiðslum sem hún hlaut við árásina. Gert er ráð fyrir að réttarhöldin hefjist klukkan 9.00 að íslenskum tíma. Sjötti maðurinn verður leiddur fyrir ungmennadómstól en hann mun vera 17 ára gamall.

Mennirnir eru einnig ákærðir meðal annars fyrir morð, þjófnað og mannrán. Sérstakur dómstóll hefur verið settur á laggirnar til þess að afgreiða málið hraðar en hefði verið gert ef það hefði farið hefðbundna leið í gegnum dómskerfi landsins. Mjög langan tíma tekur venjulega fyrir mál að fara í gegnum kerfið en fjölskylda konunnar kallaði eftir því að málið yrði sett í forgang.

Hópnauðgunin hefur valdið mikilli reiði á Indlandi og víðar um heim og leitt til fjölmennra mótmæla. Um leið hefur hún vakið athygli á slæmri stöðu kvenna á Indlandi þegar kemur að kynferðisglæpum. Búist er við að saksóknarar fari fram á dauðarefsingu yfir mönnunum fimm en verjendur halda fram sakleysi þeirra og hafa sakað lögreglu um að beita þá ofbeldi.

Þá hafa verjendur mannanna óskað eftir því að réttarhöldin fari fram annars staðar en í Nýju Delí með þeim rökum að útilokað sé að þeir fái réttaláta málsmeðferð fyrir dómstóli í sömu borg og árásirnar á konuna áttu sér stað. Hæstiréttur Indlands féllst á það í dag að taka beiðnina til skoðunar samkvæmt frétt AFP og mun taka hana fyrir á morgun. Réttarhöldin hefjast eftir sem áður í dag.

mbl.is