Árásarmennirnir verði hengdir

Réttarhöld yfir fimm mönnum sem eru ákærðir fyrir að hafa nauðgað og myrt unga stúlku í Nýju-Delí á Indlandi hófust í dag. Faðir fórnarlambsins hvetur dómara til að komast fljótt að þeirri niðurstöðu að hengja eigi árásarmennina.

Réttarhöldin fara fram fyrir luktum dyrum en einn af saksóknurum í málinu greindi fréttamönnum sem bíða við dómshúsið frá því að þau væru hafin.

Mennirnir fimm eru sakaðir um morð, nauðgun, rán, mannrán og fleiri brot og hafa saksóknarar farið fram á að þeir verði teknir af lífi. Að sögn eins verjandans er skjólstæðingur hans yngri en átján ára og hefur hann farið fram á að réttað verði í máli hans fyrir unglingadómstól líkt og þeim sjötta sem einnig er ákærður í málinu.

Er þetta í fyrsta skipti sem nauðgunarmál fær flýtimeðferð fyrir dómstólum á Indlandi en gríðarleg reiði er meðal almennings í landinu vegna árásarinnar. Tafir urðu á réttarhöldunum í dag á meðan beðið var úrskurðar um hvort þau færu fram fyrir luktum dyrum eður ei.

Faðir fórnarlambsins segir að fjölskyldan unni sér ekki hvíldar fyrr en glæpamennirnir verði dæmdir og hengdir. Hvetur hann dómarann, Yogesh Khanna, til að ljúka verki sínu sem fyrst.

Hann segir að formlegu sorgartímabili og hefðum í kringum andlát sé lokið í þorpi fjölskyldunnar en sorgarferli fjölskyldunnar muni ekki linna fyrr en dómari hefur kveðið upp dóm sinn. „Sál dóttur minnar mun ekki hvíla í friði fyrr en dómstóllinn refsar þessum mönnum,“ sagði faðirinn í samtali við AFP. Hann segir að enginn maður eigi rétt á að lifa eftir að hafa framið jafnviðbjóðslegan glæp og þessir menn.

mbl.is