Lífssýni úr öllum mönnunum fundust

Mótmælt í Nýju Delí.
Mótmælt í Nýju Delí. AFP

DNA-rannsókn á blóðblettum á fötum og öðrum lífsýnum sem fundust við rannsókn nauðgunar og morðs í Nýju-Delí, hefur tengt alla fimm mennina við málið. Þetta segir saksóknarinn nóg til að fá mennina dæmda. Krafist er dauðarefsingar yfir þeim.

Þá segir saksóknarinn að málið gegn þeim verði einnig byggt á gögnum úr símtalaskrám og á vitnisburði konunnar sem lést í kjölfar hópnauðgunarinnar. Þá er kærasti hennar, sem var með henni í strætisvagninum er árásin átti sér stað, einnig vitni í málinu.

Hópnauðgunin var gerð 16. desember.

Þrátt fyrir þessi orð saksóknarans eru ekki allir sannfærðir um að þessi gögn  muni nægja til að ná fram sakfellingu. DNA-rannsóknir hafa hingað til ekki þótt upp á marga fiska í landinu og er það m.a. skýringin á því að sakfellt er í fáum nauðgunarmálum.

Verjendur mannanna segja að þeir ætli að sýna fram á að DNA-rannsóknin sé ónákvæm og ómarktæk.

Þeir munu líka halda því fram að lögreglan hafi farið fram úr sjálfri sér við rannsókn málsins vegna gríðarlegs þrýstings frá almenningi og stjórnvöldum. Tveir verjendur segja skjólstæðinga sína hafa verið pyntaða við yfirheyrslur. Þeir segja að játningar mannanna séu einsleitar - sem hljóti að vera vegna þess að þær voru samdar fyrir þá.

Þá munu verjendurnir einnig halda því fram að skjólstæðingum þeirra hafi verið neitað um lögfræðiaðstoð í meira en þrjár vikur eftir að þeir voru handteknir.

mbl.is