Tveir nauðgaranna yngri en 18 ára

Fyrir utan héraðsdóm í Saket í Nýju-Delí.
Fyrir utan héraðsdóm í Saket í Nýju-Delí. AFP

Lögmaður eins af mönnum fimm sem eru ákærðir fyrir að hafa nauðgað og myrt unga konu í Nýju-Delí í desember segir að skjólstæðingur sinn sé yngri en átján ára og því eigi mál hans heima fyrir unglingadómstól. Sex eru taldir bera ábyrgð á ódæðinu gagnvart ungu konunni en einn þeirra er yngri en átján ára og því er ekki réttað yfir honum með hinum fimm.

Lögregla hafði áður greint frá því að Vinay Sharma, líkamsræktarþjálfari, væri tvítugur að aldri og að réttað yrði yfir honum með fjórum öðrum. Mál fimmmenninganna hefur fengið hraðferð í gegnum réttarkerfið.

„Skjólstæðingur minn er ólögráða og ég hef óskað eftir því að mál hans verði flutt yfir í unglingadómstól,“ sagði lögmaður Sharma, A.P. Singh, við fréttamann AFP fyrir utan dómsalinn í dag. Hann segir að ákvörðun þar að lútandi muni liggja fyrir þann 24. janúar. 

mbl.is