Vilja fleiri kvendómara

Indverjar hafa ítrekað krafist úrbóta í meðferð nauðgunarmála undanfarnar vikur.
Indverjar hafa ítrekað krafist úrbóta í meðferð nauðgunarmála undanfarnar vikur. AFP

Nefnd sem sett var á fót í kjölfar hópnauðgunar í strætisvagni í Nýju Delí á Indlandi í desember, leggur til að nauðgunarmál fái hraðari meðferð fyrir dómstólum og að konum verði fjölgað í hópi dómara.

Nefndin var skipuð þremur mönnum og er formaður hennar fyrrverandi forseti hæstaréttar, JS Verma. Nefndin skilaði skýrslu sinni til stjórnvalda í dag, að því er fram kemur í frétt BBC.

Dómsmálaráðherra Indlands segir að ríkisstjórnin muni fara yfir skýrsluna fljótlega.

Nefndin leggur m.a. til að kynbundnir ofbeldisglæpir fái skjótari meðferð en hingað til hefur tíðkast fyrir indverskum dómsstólum. Þá hvetur nefndin til ítarlegri rannsókna lögreglu og til hugarfarsbreytingar í öllu kerfinu er kemur að glæpum gegn konum.

„Til að framfylgja lögum er varkárni þeirra sem sjá um framkvæmd þeirra nauðsynleg,“ sagði Verma. „Hlutverk ríkisins er ekki aðeins að refsa glæpamönnum heldur að koma í veg fyrir glæpi gegn konum.“

Dómarinn Leila Seth, sem einnig á sæti í nefndinni, segir lögregluna ekki taka kvartanir nauðgunarfórnarlamba alvarlega.

Nefndin fjallaði einnig um heimilisofbeldi.

mbl.is