„Það verður væntanlega núna mjög fljótlega. Það verður allavega ekki eftir neinu að bíða eftir helgina,“ segir Steingrímur J. Sigfússon, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, spurður að því hvort og hvenær megi búast við því að gefnir verði út makrílkvótar hérlendis.
„Að vísu er þessi fundur Evrópusambandsins núna á mánudag og þriðjudag og þar verður hin endanlega ákvörðun tekin af þeirra hálfu. Það liggur í raun fyrir hver hún verður eftir niðurstöðu Noregs og ESB í sínum samningum en það má segja að hún sé ekki formlega tekin fyrr en eftir að ráðherrarnir hittast og ganga frá málinu,“ segir Steingrímur og bætir við: „Það er handan við hornið að klára það mál af okkar hálfu þótt okkur liggi í sjálfu sér ekkert á vegna þess að okkar veiðar hefjast ekki strax.“