Einn nauðgaranna er 17 ára

Sakborningarnir 6 eru leiddir með hauspoka inn í réttarsal.
Sakborningarnir 6 eru leiddir með hauspoka inn í réttarsal. AFP

Einn sakborninganna í hópnauðgunarmálinu á Indlandi, sem leiddi til dauða 23 ára gamallar konu, var í dag úrskurðaður undir lögaldri og verður því réttað yfir honum í sérstökum unglingadómstóli.

Tilkynnt var í dag að dómstólar hafi, að athuguðu máli, fallist á að fæðingardagur piltsins sé réttilega 4. júní 1995, sem þýðir að hann er 17 ára gamall. Verði hann fundinn sekur fyrir unglingadómstóli gæti hans beðið hámark þriggja ára vist á sérstakri endurhæfingarstofnun. Þetta kemur fram á vef BBC.

Máli hinna karlmannanna fimm sem ákærðir eru fyrir mannrán, nauðgun og morð verður fram haldið hjá dómstólum og hefur verið ákveðið að það fái flýtimeðferð svo niðurstaða fáist sem fyrst. Þeirra bíður að öllum líkindum dauðadómur.

mbl.is