Sjávarútvegsráðherra Skotlands, Richard Lochhead, vill að fenginn verði alþjóðlegur sáttasemjari til þess að miðla málum í makríldeilunni á milli Íslands og Færeyja annars vegar og Evrópusambandsins og Noregs hins vegar. Þetta kemur fram á fréttavefnum Scotsman.com í dag.
Haft er eftir Lochhead að hann vilji enn að Evrópusambandið beiti Íslendinga og Færeyinga refsiaðgerðum vegna málsins en hann sé reiðubúinn að skoða aðrar leiðir til þess að leysa makríldeiluna.
„Skipun alþjóðlegs sáttasemjara gæti hjálpað til við að ná samningum og binda endi á þessa deilu á hlutlægan hátt. Ég hvet aðra sjávarútvegsráðherra [sem aðild eiga að deilunni] til þess að íhuga þessa tillögu alvarlega og ég hyggst skrifa sjávarútvegsstjóra Evrópusambandsins, Mariu Damanaki, og óska eftir hennar sjónarmiðum,“ segir Lochhead.