„Þetta er sama gamla glundrið á nýjum belgjum,“ sagði Einar Valur Kristjánsson, framkvæmdastjóri Hraðfrystihússins Gunnvarar í Hnífsdal, um nýtt fiskveiðistjórnunarfrumvarp atvinnuvegaráðherra.
Einar Valur kvaðst ekki sjá neinar breytingar til hins betra frá fyrri frumvörpum um sama efni á þessu kjörtímabili. „Þetta er landsbyggðarskattur og mun bara leiða til verri lífskjara,“ sagði Einar Valur.
Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag líst honum ekki vel á tillögurnar um kvótaþing. „Það mun hafa slæmar afleiðingar. Ég tel að betra sé að við fáum að ráða okkar málum sjálf hér á landsbyggðinni en að alræði ríkisins fari að vaka yfir þessu og stýra því hverjir fá og hverjir mega. Það ber allt að sama brunni hjá þessu fólki. Það er eitthvað annað en umhyggja fyrir landsbyggðinni sem rekur það áfram.“