Hertar refsingar við nauðgunum

Mótmælendur í Nýju-Delhi minnast ungu konunnar sem lést eftir hópnauðgun …
Mótmælendur í Nýju-Delhi minnast ungu konunnar sem lést eftir hópnauðgun í desember. AFP

Forseti Indlands samþykkti í gær lög um hertar refsingar við nauðgunum, þar á meðal innleiðingu dauðarefsingar fyrir slíka glæpi. Hópnauðgunin sem leiddi til dauða ungrar konu í lok síðasta árs varð til þess að indverskur almenningur krafðist harðari viðurlaga.

Fimm karlmenn sem sakaðir eru um að hafa nauðgað og myrt ungu konuna neituðu í gær sök í réttarhöldum yfir þeim, að sögn BBC. Gríðarleg reiði ríkir enn á Indlandi vegna málsins. 

Afp hefur eftir hátt settum embættismanni að forseti Indlands, Pranab Mukherjee, hafi samþykkt frumvarp ríkisstjórnarinnar um glæpi gegn konum. Lögin taki samstundis gildi en verði þó einnig lögð fyrir þingið.

Við smíði frumvarpsins var m.a. farið eftir ráðleggingum sérstakrar nefndar sem ríkisstjórnin skipaði til að fara yfir lög um kynferðisglæpi. Nefndin mæltist til þess að kynferðisbrot fái hraðari meðferð í réttarkerfinu og að fangelsisdómar verði þyngdir, en ekki var lagt til að taka upp dauðarefsingu fyrir kynferðisglæpi.

Dauðarefsingu er ekki oft beitt á Indlandi og aðeins við alvarlegustu glæpunum, að sögn BBC. Fyrsta aftakan í 8 ár fór fram í nóvember síðast liðnum þegar síðasti eftirlifandi árásarmaðurinn að baki hryðjuverkunum í Mumbaí árið 2008 var tekinn af lífi.

Samkvæmt nýju lagabreytingunum varðar nauðgun sem leiðir til dauða eða varanlegrar örkumlunar nú dauðarefsingu. Þá er refsiramminn víkkaður þannig að lágmarksrefsing fyrir hópnauðgun, kynferðisofbeldi gegn barni undir lögaldri eða nauðgun framin af lögreglumanni eða öðrum í valdastöðu er tvöfölduð úr 10 árum í 20 ár. 

Kvenréttindakonur gagnrýna lagabreytinguna og segja þyngri refsingar einar og sér ekki duga til að uppræta kynbundnu ofbeldi. Þá sé einnig rangt að ríkisstjórnin samþykki lög án þess að þau séu rædd í þinginu.

mbl.is