Í dag verða fyrstu vitnin í hópnauðgunarmálinu sem átti sér stað í Nýju Delí á Indlandi leidd fyrir dómara. Sex menn eru ákærðir í málinu fyrir nauðgun, frelsissviptingu, morð og fleiri ákæruliði.
Stúlkan sem ráðist var á í strætisvagni og nauðgað af hópi manna er hún var þar á ferð með vini sínum var 23 ára. Hún lést í desember af sárum sínum.
Í frétt BBC segir að fimm mannanna séu mættir í dómshúsið en réttarhöldin eiga samkvæmt áætlun að taka stuttan tíma. Gagnrýnt hefur verið frá því að málið kom upp að nauðgarar séu sjaldan ákærðir í landinu og að dómsmálin taki gríðarlegan tíma í kerfinu.
Mennirnir hafa allir sagst saklausir af ákærunum. Réttað verður yfir sjötta manninum fyrir unglingadómstóli.
Ef þeir verða sakfelldir gætu þeir átt dauðadóm yfir höfði sér.
Áttatíu vitni verða leidd fyrir dóminn. Fréttamenn mega ekki vera viðstaddir réttarhöldum og öllum aðilum málsins hefur verið bannað að tala við fréttamenn utan dómshússins.
Lykilvitni í málinu er vinur stúlkunnar sem ráðist var á. Sá er 28 ára gamall karlmaður. Hann mætti til dómshússins í hjólastól en hann varð einnig fyrir árás mannanna.
Mennirnir fimm sem ákærðir eru fyrir árásirnar eru ákærðir í 13 liðum.