Lykilvitnið yfirheyrt á Indlandi

Verjendur mannanna sem sakaðir eru um að hafa nauðgað konu í strætisvagni í Nýju Delí, hófu í dag að yfirheyra vin konunnar sem var með henni kvöldið sem árásin átti sér stað.

Fimm karlar eru nú fyrir dómi, ákærðir fyrir að nauðga konunni, svipta hana frelsi og myrða. Sjötti maðurinn er undir lögaldri og verður mál hans tekið fyrir unglingadómstól.

Konan lést af sárum sínum í kjölfar árásarinnar í lok desember.

Vinur konunnar er lykilvitni saksóknaranna í málinu. Í gær þurfti hann m.a. að staðfesta í hvaða strætisvagni árásin átti sér stað hinn 16. desember í fyrra. Vagninn hafði verið fluttur að dómshúsinu.

Mennirnir fimm hafa allir neitað sök en þeir eru ákærðir í 13 liðum.

Konan sem varð fyrir árásinni var 23 ára gamall læknanemi. Hún lést vegna innvortis blæðinga sem hún hlaut í árásinni.

Hún og vinur hennar höfðu farið í kvikmyndahús um kvöldið. Þau höfðu reynt að fá leiguvagn til að komast heim er að þeim ók strætisvagn og þeim var boðið far.

Mennirnir í vagninum réðust svo að konunni og nauðguðu henni. Þeir notuðu m.a. ryðgaða járnstöng í árásinni. Þeir réðust einnig á vin hennar og misþyrmdu honum með þeim afleiðingum að hann getur enn ekki gengið. Hann kom fyrir dóminn í dag í hjólastól.

Dómararnir hafa ákveðið að banna allan fréttaflutning úr réttarsalnum og skipað verjendum mannanna að tjá sig ekki við fjölmiðla.

mbl.is