Enn eitt hópnauðgunarmálið á Indlandi

Frá mótmælum í Nýju-Delí á Indlandi þar sem þess er …
Frá mótmælum í Nýju-Delí á Indlandi þar sem þess er krafist að fórnarlömb kynferðisofbeldis fái sanngjarna málsmeðferð. AFP

Lögreglan í Nýju-Delí á Indlandi handtók í dag fjóra karlmenn sem grunaðir eru um að hafa nauðgað 24 ára gamalli konu í gær. Mennirnir höfðu numið konuna á brott, misþyrmdu henni og óku með hana um borgina. Þeir fóru ekki eftir umferðarreglum og voru því stöðvaðir af lögreglu.

Þá kom í ljós að þeir héldu konunni gegn vilja sínum. Ekki liggur fyrir hvert mennirnir hugðust fara með hana.

Konan sagði við lögreglu að einn mannanna væri kunningi sinn.

Þetta er enn eitt málið sem kemur upp á Indlandi sem tengist hrottalegum hópnauðgunum og misþyrmingum á konum og börnum. Árið 2011 voru 24.206 nauðganir tilkynntar í landinu, en mannréttindasamtök telja að það sé einungis brot af þeim kynferðisglæpum sem eigi sér stað þar á hverju ári. Lögregla hefur legið undir ámæli fyrir að taka ófaglega á málum sem þessum og skömm hefur þótt umlykja þá sem verða fyrir kynferðislegu ofbeldi.

mbl.is