Lögregla og læknar niðurlægja börn

Indversk börn hlaupa í gegnum engi í héraðinu Siliguri við …
Indversk börn hlaupa í gegnum engi í héraðinu Siliguri við sólsetur. AFP

Börn sem verða fyrir kynferðisofbeldi á Indlandi upplifa oft niðurlægingu af hálfu lögreglu og illa meðferð lækna ef þau eru nógu kjörkuð til að láta vita um ofbeldið. Þetta segir í nýrri skýrslu frá Human Rights Watch.

Samtökin segja að yfirvöld á Indlandi verði að tileinka sér meiri tillitsemi gagnvart þolendum kynferðisofbeldis. „Hugrökk börn sem láta í sér heyra um kynferðisofbeldi eru oft hundsuð og vísað burt af lögreglu, heilbrigðisfólki og stjórnvöldum,“ segir svæðisstjóri HRW á Indlandi, Meenakashi Ganguly.

Ill meðferð á börnum

Á Indlandi viðgengst enn svo kallað „fingrapróf“ sem framkvæmt er á bæði konum og börnum sem tilkynna kynferðisofbeldi. Þá er fingri stungið upp í leggöng eða endaþarm til að kanna sannleiksgildi frásagnar þeirra, þrátt fyrir að réttarlæknisfræðingar hafi löngu lýst því yfir að slík „próf“ hafi ekkert gildi.

Í skýrslunni er vitnað í móður þriggja ára stúlku, sem var skilin eftir sárkvalin af læknum sem rannsökuðu hana eftir kynferðisárás. „Dóttir mín pissaði ekki í sex til átta klukkustundir vegna þess að það var of sárt,“ er haft eftir móðurinni.

Ganguly segir að þetta sé ekkert annað en ill meðferð á börnum sem þurfi að uppræta og kallar eftir því að réttarkerfið verði tekið í gegn. Gagnrýnin sem sett er fram í skýrslunni er um margt samhljóða þeim mótmælum sem ómað hafa um Indland allt eftir hina hryllilegu hópnauðgun í desember sem leiddi til dauða ungrar konu.

Endurupplifa hryllinginn

Samkvæmt skýrslum er um 7.200 börnum nauðgað árlega á Indlandi. Talið er að þau kynferðisbrot sem skráð eru hjá lögreglu, bæði gegn börnum og fullorðnum, séu aðeins toppurinn á ísjakanum þar sem þolendur eru oftar en ekki hræddir við að tilkynna ofbeldið og óttast að stíga fæti inn á lögreglustöð.

„Það er alveg nógu erfitt fyrir barn sem beitt er kynferðisofbeldi og fjölskyldu þess að stíga fram og leita hjálpar, en í stað þess að málin séu meðhöndluð af nærgætni gera indversk stjórnvöld oft lítið úr þeim og láta þau endurupplifa hryllinginn,“ sagði Ganguly þegar skýrsla HRW var kynnt í gær.

Skýrslan er 82 blaðsíður og ber heitið „Þögnin rofin“. Í henni eru yfir 100 viðtöl við þolendur kynferðisofbeldis sem segja frá reynslu sinni af samskiptum við yfirvöld. Börn eru beitt kynferðisofbeldi á heimili sínu, í skólum eða á stofnunum vítt og breitt um landið samkvæmt skýrslunni, en sjaldgæft er að málin fái framgang í kerfinu.

Breytingum verði fylgt eftir

Á síðasta ári tóku þó gildi ný lög sem stjórnvöld samþykktu um vernd barna gegn kynferðisglæpum. Er þar kveðið á um refsingar við hvers kyns kynferðislegu ofbeldi auk þess sem lögreglu og dómstólum eru gefnar leiðbeiningar um hvernig taka skuli á slíkum málum.

Ganguly segir þetta afar jákvætt skref af hálfu stjórnvalda. „En allar tilraunir stjórnvalda til að tækla þennan vanda munu misheppnast ef ekki verður gerð gangskör í umbótum á réttarkerfinu til að tryggja að þau kynferðisbrot sem tilkynnt eru séu rannsökuð til hlítar og réttað yfir gerendunum.“

Indversk skólabörn í réttindagöngu.
Indversk skólabörn í réttindagöngu. AFP
Börn indverskra vændiskvenna í Kolkata í kröfugöngu gegn félagslegri mismunun.
Börn indverskra vændiskvenna í Kolkata í kröfugöngu gegn félagslegri mismunun. AFP
Börn indverskra vændiskvenna í Kolkata í kröfugöngu gegn félagslegri mismunun.
Börn indverskra vændiskvenna í Kolkata í kröfugöngu gegn félagslegri mismunun. AFP
mbl.is