„Það liggur við að ástandið breytist frá degi til dags þegar veðurfarið er eins og nú er. Eins og staðan er núna þurfa aðstæður að vera í lagi 5-6 daga í röð til að hægt sé að opna. Ölduhæð þarf að haldast undir tveimur metrum og straumar að vera hagstæðir í þann tíma.“
Þetta segir Gunnlaugur Kristjánsson, forstjóri Björgunar sem nýlega gerði tveggja ára samning við Siglingastofnun um dýpkun í Landeyjahöfn.
Hann segir að veðurútlit þurfi að vera gott í nokkra daga, það taki því ekki að fara í dýpkun í einn dag. Eins dags vinna fari auðveldlega í súginn ef dýpkunarskipin geti ekki verið lengur að störfum. Herjólfur hefur ekki siglt í Landeyjahöfn síðan í byrjun nóvember.