Fyrrverandi kærasta Barkar Gunnarssonar tók hann í gegn, henti fötunum hans og lét hann kaupa ný og sagði honum að sápa væri ekki eina snyrtivaran. Annars er Börkur ekki bara að hugsa um útlitið því að 1. mars verður kvikmyndin, Þetta reddast, frumsýnd en hann er leikstjóri myndarinnar. Björn Thors leikur aðalhlutverkið í bíómyndinni sem fjallar um íslenskan alkóhólískan kavaler sem kann svo sannarlega ekki að tríta dömuna sína.
Hvað gerir þú til að halda þér í formi? „Ég fer í fótbolta fimm sinnum í viku. Maður fær hvergi jafn dýrslega útrás og í fótbolta, þar sem maður er hluti af hjörð að berjast gegn annarri hjörð manna: að djöflast, rífast, berjast og sparka. Svo er þetta allt saman svo fullkomlega tilgangslaust í raun og veru, bara stjúpid leikur. En á meðan á honum stendur, er ekkert annað í heiminum sem skiptir máli.
Hugsar þú mikið um útlitið? Ég gerði það aldrei. En svo var ég í sambandi við stúlku í tæpt ár, sem er 11 árum yngri en ég og hún tók mig rækilega í gegn. Hún tók mikið af uppáhalds fötunum mínum, sérstaklega nokkrar tíu ára gamlar rúllukragapeysur, og henti þeim. Hún ýtti mér inn á það hættulega svæði að fara að kaupa föt sem voru ekki annaðhvort hvít eða svört á litin. Hún kynnti mig líka fyrir því að sápa væri ekki eina snyrtivaran.
Gerir þú eitthvað til að viðhalda andlegri heilsu? Já, ég reyni að vera ekki innanum fólk eftir vinnu. Það er ekkert sem getur ógnað andlegri heilsu manns nema annað fólk.
Gerir þú eitthvað sérstakt ef þú þarft að líta sérstaklega vel út? Já, ég fer í bað.
Hver er besta slökunin? Hún næst í búningsherberginu eftir jafnan fótboltaleik þar sem maður hefur skorað sigurmarkið. Það er mjög nálægt Nirvana-stigi að upplifa það.
Hver er uppáhaldssnyrtivaran þín? Sápa, helst frá Lux. Hún er svo sterk að hún þrífur ekki aðeins svertuna á líkama manns heldur líka af sálinni og samviskunni.
Uppáhaldsrakspírinn? Ég man ekki í augnablikinu hvað rakspírinn heitir, en hann er eitthvað voða flottur, eitthvað sem mín fyrrverandi gaf mér.
Hvað er í snyrtibuddunni? Ef ég ætti snyrtibuddu myndi ég vera með íþróttateipið mitt þar, sápu og sjampó.