„Við sem metnaðarfull þjóð erum kröfuhörð og viljum eiga menntakerfi og heilbrigðisþjónustu í fremstu röð. Við sættum okkur ekki við minna þrátt fyrir fámennið. Um þetta virðumst við öll sammála, óháð stjórnmálaskoðun, búsetu, aldri, kyni og menntun,“ sagði Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands, við brautskráningu kandídata í dag.
Hún segir að Háskóli Íslands og Landspítali hafi um árabil starfað náið saman og menntað afburðahæft fólk til starfa í heilbrigðiskerfinu.
„Ef við ætlum okkur í raun að halda hér háu menntunarstigi, ef við ætlum að laða vel þjálfað og metnaðarfullt fólk til starfa, ef við ætlum að vera tilbúin að mæta nýjum tímum og geta nýtt okkur þá tækni sem er í boði, þarf miklu meira en orðin tóm.
Við munum ekki sætta okkur við að þurfa að fara í erfiðar skurðaðgerðir upp á gamla mátann, að láta holrista okkur og brjóta bein til að framkvæma aðgerð sem hægt er að gera gegnum nárann með réttum búnaði og sérþjálfuðu starfsfólki.
Við munum ekki vilja vera án tækja á borð við daVinci-skurðþjarkinn sem gerir kleift að framkvæma flóknar aðgerðir með skjótari bata þannig að verkir og blóðmissir hjá sjúklingi eru í lágmarki miðað við hefðbundnar aðgerðir. Það er alveg ljóst að þeir sem hafa fengið þjálfun við framkvæmd aðgerða sem þessara munu ekki sækjast eftir starfi nema aðbúnaður sé fyrir hendi.
Við verðum að standa okkur betur í að hugsa til framtíðar. Við verðum sem samfélag að vera áræðin og kjósa að forgangsraða í þágu menntunar og heilbrigðisþjónustu.
Við verðum að tryggja að nýtt háskólasjúkrahús rísi sem gerir okkur kleift að mæta nýjum tímum og auknum kröfum í menntun og heilbrigðisþjónustu. Ég vona að frumvarp um sjúkrahúsið, sem væntanlega verður lagt fram á Alþingi eftir helgi, fái farsæla umfjöllun. Við megum í raun engan tíma missa.
Með uppbyggingu háskólasjúkrahúss stíga Landspítalinn og Háskóli Íslands saman markviss skref til framþróunar á heilbrigðisvísindasviði. Við vitum öll að menntun og heilbrigðisþjónusta eru og verða grundvallarskilyrði til búsetu hér á landi,“ sagði Kristín.
Alls brautskráðust 466 kandídatar frá Háskóla Íslands í dag.