Nýtt frumvarp um stjórn fiskveiða færir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra of víðtæk völd til ráðstöfunar aflaheimilda úr pottum á kostnað hagkvæmni og arðsemi í sjávarútvegi.
Úthlutunin skapar jafnframt þá hættu að félög með lakari rekstur fái aðstoð á kostnað félaga sem eru betur rekin og eru ekki talin þurfa aðstoð. Hin opinbera aðstoð kann að fjölga störfum en mun leiða til óhagkvæmari reksturs og fjárfestinga í greininni.
Á þennan veg má draga saman umsögn endurskoðunarfyrirtækisins Deloitte á frumvarpi um stjórn fiskveiða sem ríkisstjórnin stefnir á að afgreiða á þessu þingi. Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag kemur fram, að sérfræðingar Deloitte telja að hin neikvæðu áhrif af inngripi ríkisins í sjávarútveginn muni koma niður á lífskjörum almennings í landinu og auka byrðar á útgerðir sem margar hverjar séu að sligast vegna veiðigjalda, skattlagningar sem eigi eftir að aukast verulega á næstu árum.