Brotið gegn sjö ára stúlku

Ítrekuð mótmæli hafa farið fram í Indlandi síðustu vikur vegna …
Ítrekuð mótmæli hafa farið fram í Indlandi síðustu vikur vegna kynbundins ofbeldis. AFP

Mótmæli hafa brotist út í höfuðborg Indlands, Delí, eftir að fréttir bárust af því að sjö ára stúlka hefði verið beitt kynferðisofbeldi í skóla.

Lögreglan notaði kylfur til að sundra hópi mótmælenda sem safnast hafði saman fyrir utan sjúkrahúsið þar sem stúlkan liggur eftir árásina, segir í frétt BBC.

Kennarar og öryggisverðir í skóla stúlkunnar eru nú yfirheyrðir vegna málsins.

Að sögn BBC eru fleiri hundruð manns fyrir utan sjúkrahúsið að mótmæla. Mótmælendur hafa grýtt lögregluna sem hefur tekið harkalega á móti með kylfum.

Fólkið er einnig að mótmæla meðferð máls þriggja systra sem var nauðgað og þær svo drepnar í Maharashta-héraði. Það mál hefur undanfarið verið til umfjöllunar í þinginu.

mbl.is