Alls bárust yfir 40 umsagnir til atvinnuveganefndar um frumvarp atvinnuvegaráðherra um stjórn fiskveiða.
Nefna má umsagnir Landsbankans, Arion banka, Íslandsbanka, Alþýðusambands Íslands, ýmissa sveitarfélaga og stéttarfélaga og LÍÚ, SA og SF í sameiningu. Flestar eru gagnrýnar á frumvarpið og vinnubrögð við meðferð málsins.
Í fréttaskýringu um þetta mál í Morgunblaðinu í dag kemur meðal annars fram, að margir byggja álit sín á umsögnum um fyrri frumvörp sama efnis eða vísa til þeirra. Frumvarpið var lagt fram á þingi 31. janúar sl., en byggist á eldri frumvörpum, sem lögð hafa verið fram á kjörtímabilinu. Málið var afgreitt úr nefndinni í fyrrakvöld. Ekki liggur fyrir hvort og þá hvenær málið verður tekið til annarrar umræðu á Alþingi.