Óvenju margar snéru aftur til ofbeldismanns

mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Á árinu 2012 dvöldu 200 gestir, konur og börn, í Kvennaathvarfinu í allt frá einum degi upp í 213 daga. Athygli vakti mikill fjöldi barna, en þau voru 87 og dvöldu í athvarfinu í að meðaltali 24 daga. Íbúafjöldi fór upp í 23 þegar mest lét en að meðaltali dvöldu 6 konur og 6 börn í athvarfinu á degi hverjum.

Þetta kemur fram í tölum sem gefnar voru út í dag um aðsókn að Kvennaathvarfinu.

„Sú ánægjulega breyting varð á árinu að börn í athvarfinu fá nú þjónustu á vegum tilraunaverkefnis í samvinnu Barnaverndarstofu og lögreglu og barnaverndar á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Sigþrúður Guðmundsdóttir, framkvæmdastýra Kvennaathvarfsins.

„Slæmu fréttirnar frá árinu eru að óvenju hátt hlutfall kvenna fór aftur til ofbeldismannsins en reikna má með að ekki minna en 40% dvalarkvenna hafi farið heim í óbreyttar aðstæður. Að sama skapi fóru fáar konur, eða 6% dvalarkvenna heim í breyttar aðstæður þar sem ofbeldismaðurinn er fluttur að heiman eða að öðru leyti hægt að reikna með að ástandið á heimilinu hafi batnað.“

Yngsta barnið nokkurra vikna gamalt

Dvöl gestanna varði allt frá einum degi til 213 daga en konur dvöldu að meðaltali í 20 daga. Konur með börn dvöldu að jafnaði lengur en barnlausar konur, eða 24 daga. Að jafnaði voru 12 íbúar í húsinu á hverjum degi; 6 konur og 6 börn. Í ágúst fór íbúafjöldi upp í 23. Það var því oft þröng á þingi og þörfin fyrir stærra hús var æpandi. Þeirri þörf hefur nú verið mætt en Kvennaathvarfið flutti í nýtt húsnæði fyrir skömmu.

Að auki komu 211 konur í eitt eða fleiri ráðgjafar- og stuðningsviðtöl á árinu og þrír sjálfshjálparhópar voru starfræktir. Sími athvarfsins var opinn allan sólarhringinn sem endranær.

Konurnar 334 sem komu í athvarfið á árinu voru á aldrinum 15-77 ára en ofbeldismennirnir sem stuðluðu að veru þeirra á aldrinum 15-89 ára. Yngsta barnið var nokkurra vikna gamalt en það elsta 17 ára.

Á árinu komst á sú nýbreytni að nú fá börnin í athvarfinu þjónustu sérfræðings á vegum tilraunaverkefnis í samvinnu Barnaverndarstofu, Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og barnaverndar sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu.  Er þetta liður í að bæta þjónustu við börn í athvarfinu og draga úr áhrifum ofbeldisins í lífi þeirra.

80% ofbeldismannanna eru Íslendingar

66% kvenna sem komu í athvarfið á árinu eru íslenskar að uppruna. Meirihluti dvalarkvenna er þó að erlendum uppruna, eða 56% sem skýrist líklega af því að þær hafa í færri hús að venda heldur en íslensku konurnar þegar þær yfirgefa heimili sín. Reikna má með að sömu ástæður liggi að baki þess að erlendu konurnar dvelja að jafnaði lengur í athvarfinu en íslenskar konur.  Meirihluti ofbeldismannanna, eða rúm 80%, eru Íslendingar.

mbl.is