Fást varanlegar undanþágur?

mbl.is/Ómar

Tals­vert hef­ur verið rætt um það að und­an­förnu hvort Íslandi kynnu að standa til boða var­an­leg­ar und­anþágur frá yf­ir­stjórn Evr­ópu­sam­bands­ins ef til inn­göngu í sam­bandið kæmi. Þá einkum og sér í lagi í tengsl­um við ís­lensk­an sjáv­ar­út­veg. Þannig kom sú umræða til að mynda tölu­vert við sögu á Alþingi ný­verið þegar þing­menn ræddu um skýrslu Öss­ur­ar Skarp­héðins­son­ar, ut­an­rík­is­ráðherra, um ut­an­rík­is- og alþjóðamál.

Til þessa hef­ur sú afstaða verið ríkj­andi hér á landi að ein helsta for­senda þess að Ísland gæti gengið í Evr­ópu­sam­bandið væri að yf­ir­ráðin yfir fisk­veiðilög­sög­unni í kring­um landið og auðlind­um henn­ar yrðu áfram í hönd­um Íslend­inga. Með öðrum orðum að feng­in yrði var­an­leg und­anþága frá yf­ir­stjórn Evr­ópu­sam­bands­ins í sjáv­ar­út­vegs­mál­um og þar með sam­eig­in­legri sjáv­ar­út­vegs­stefnu sam­bands­ins sem ger­ir ráð fyr­ir slíkri yf­ir­stjórn í sam­ræmi við ákvæði Lissa­bon-sátt­mál­ans, grunn­lög­gjaf­ar þess.

Var­an­leg­ar und­anþágur ekki í boði

Ekk­ert ríki hef­ur hins veg­ar fengið slíka var­an­lega und­anþágu í sjáv­ar­út­vegs­mál­um eins og til að mynda kem­ur fram í riti Stef­áns Más Stef­áns­son­ar, laga­pró­fess­ors og sér­fræðings í Evr­ópu­rétti, Land­búnaðarlög­gjöf Evr­ópu­sam­bands­ins og Evr­ópska efna­hags­svæðis­ins frá 2011. Ein­ung­is hafa verið veitt­ar tíma­bundn­ar und­anþágur. Hins veg­ar hef­ur í ákveðnum til­fell­um verið boðið upp á sér­lausn­ir í sjáv­ar­út­vegs­mál­um sem fela þó ekki í sér und­anþágur frá yf­ir­stjórn Evr­ópu­sam­bands­ins held­ur ein­ung­is breytta stjórn­sýslu til þess að koma að ákveðnu marki til móts við aðstæður ein­stakra ríkja inn­an ramma reglu­verks sam­bands­ins.

Einnig er til að mynda fjallað um þetta í grein­inni „Iceland’s App­licati­on for Europe­an Uni­on Mem­bers­hip“ í tíma­rit­inu Studia Diplom­atica árið 2011 eft­ir fræðimenn­ina Bald­ur Þór­halls­son, Alyson J.K. Bai­les og Gra­ham Avery þar sem kom­ist er að þeirri niður­stöðu að mögu­legt ætti að vera að semja um sjáv­ar­út­vegs­mál­in í viðræðum við Evr­ópu­sam­bandið svo framar­lega sem Íslend­ing­ar fari ekki fram á það að standa fyr­ir utan sam­eig­in­lega sjáv­ar­út­vegs­stefnu sam­bands­ins. Það er að fá var­an­lega und­anþágu frá yf­ir­stjórn þess.

Fóru fram á að halda yf­ir­ráðum sín­um

Bæði Nor­eg­ur og Malta fóru fram á var­an­leg­ar und­anþágur í sjáv­ar­út­vegs­mál­um þegar rík­in sóttu um inn­göngu í Evr­ópu­sam­bandið á sín­um tíma, en Norðmenn höfnuðu inn­göngu árið 1994 á meðan Malt­verj­ar gengu í sam­bandið um ára­tug síðar. Meðal ann­ars vildu rík­in tvö halda yf­ir­ráðum yfir efna­hagslög­sög­um sín­um að hluta eða í heild en því var hins veg­ar hafnað af Evr­ópu­sam­band­inu ekki síst á þeim for­send­um að slíkt færi gegn lög­gjöf þess. Um þetta er meðal ann­ars fjallað í riti Stef­áns Más og Ótt­ars Páls­son­ar, lög­fræðings, Fisk­veiðiregl­ur Íslands og Evr­ópu­sam­bands­ins. Þróun, sam­an­b­urður og staða Íslands frá 2003.

Þannig vildu Norðmenn til að mynda halda yf­ir­ráðum yfir efna­hagslög­sögu sinni norðan 62. breidd­ar­gráðu og að sam­bandið viður­kenndi eign­ar­rétt þeirra á hafsvæðunum inn­an efna­hagslög­sögu Nor­egs en því hafnaði Evr­ópu­sam­bandið sem fyrr seg­ir. Norðmönn­um stóð aðeins til boða tíma­bund­in und­anþága líkt og til að mynda Portú­göl­um áður. Und­anþágan var til fjög­urra ára. Malt­verj­um var hins veg­ar boðin sér­lausn sem fel­ur í sér að ein­ung­is lít­il fiski­skip, óháð því frá hvaða ríki inn­an sam­bands­ins þau koma, megi veiða inn­an 25 mílna lög­sögu eyj­ar­inn­ar.

Verður aðeins farið fram á sér­lausn­ir

Fram hef­ur komið ít­rekað í máli Öss­ur­ar Skarp­héðins­son­ar, ut­an­rík­is­ráðherra, að ekki verði farið fram á slík­ar var­an­leg­ar und­anþágur frá yf­ir­stjórn Evr­ópu­sam­bands­ins í sjáv­ar­út­vegs­mál­um af hálfu Íslands í yf­ir­stand­andi viðræðum um inn­göngu í sam­bandið. Nú síðast í umræðum á Alþingi um skýrslu hans fyr­ir skemmstu. Sama sjón­ar­miði hef­ur einnig verið lýst af aðal­samn­inga­manni Íslands í viðræðunum, Stefáni Hauki Jó­hann­es­syni. Beðið verði um sér­lausn­ir sem rúm­ist inn­an sam­eig­in­legr­ar sjáv­ar­út­vegs­stefnu Evr­ópu­sam­bands­ins og gangi ekki gegn grund­vall­ar­regl­um sam­bands­ins. Þá hef­ur Össur tekið und­ir það sjón­ar­mið að var­an­leg­ar und­anþágur frá sam­eig­in­legri sjáv­ar­út­vegs­stefnu sam­bands­ins séu ekki í boði. Það kom til að mynda fram í ræðu sem hann flutti á Alþingi 16. júlí 2009 þegar um­sókn­in um inn­göngu í Evr­ópu­sam­bandið var samþykkt.

Ráðherr­ann hef­ur hins veg­ar lagt áherslu á að regla Evr­ópu­sam­bands­ins um hlut­falls­lega stöðugar veiðar tryggi sjáv­ar­út­vegs­hags­muni Íslands. Um­rædd regla, sem geng­ur út á út­hlut­un afla­heim­ilda til ríkja á grund­velli sögu­legr­ar veiðireynslu, breyt­ir því hins veg­ar ekki að yf­ir­stjórn mála­flokks­ins er eft­ir sem áður hjá stofn­un­um sam­bands­ins enda fjall­ar hún ekki um fyr­ir­komu­lagið í þeim efn­um. Þá hef­ur fram­kvæmda­stjórn Evr­ópu­sam­bands­ins lýst því yfir að regl­an tryggi ekki leng­ur að út­hlutaðar afla­heim­ild­ir hald­ist hjá viðkom­andi ríkj­um, sam­an­ber síðustu græn­bók fram­kvæmda­stjórn­ar­inn­ar um sjáv­ar­út­vegs­mál frá 2009, og vísað í reynsl­una af fram­kvæmd regl­unn­ar til þessa í þeim efn­um.

„Ekki hægt að fá var­an­leg­ar und­anþágur“

Var­an­leg­ar und­anþágur frá sjáv­ar­út­vegs­stefnu Evr­ópu­sam­bands­ins hafa þannig ekki verið veitt­ar til þessa og for­ystu­menn sam­bands­ins hafa í sam­ræmi við það ít­rekað áréttað að slíkt sé ekki í boði af hálfu þess. Það kom meðal ann­ars skýrt fram í máli Stef­ans Füle, stækk­un­ar­stjóra Evr­ópu­sam­bands­ins, á blaðamanna­fundi í Brus­sel 27. júlí 2010 þar sem hann sat fyr­ir svör­um ásamt Öss­uri Skarp­héðins­syni. „Það er ekki hægt að fá nein­ar var­an­leg­ar und­anþágur frá lög­um ESB,“ sagði Füle af því til­efni við fyr­ir­spurn frá spænsk­um blaðamanni varðandi ís­lensk­an sjáv­ar­út­veg.

Sam­an­tekið er þannig ljóst að ríki sem óska eft­ir inn­göngu í Evr­ópu­sam­bandið geta ekki gert ráð fyr­ir því að halda yf­ir­ráðum sín­um yfir eig­in sjáv­ar­út­vegi. Ein­ung­is kunna að vera í boði tíma­bundn­ar und­anþágur í þeim efn­um og sér­lausn­ir sem koma ekki í veg fyr­ir að yf­ir­stjórn mála­flokks­ins fær­ist til stofn­ana sam­bands­ins. Fyr­ir ligg­ur hins veg­ar að ís­lensk stjórn­völd ætla ekki að fara fram á var­an­leg­ar und­anþágur í þeim efn­um held­ur aðeins sér­lausn­ir. Þá er einnig ljóst að eng­in trygg­ing er fólg­in í regl­unni um hlut­falls­lega stöðugar veiðar fyr­ir því að afla­heim­ild­ir á Íslands­miðum, sem Evr­ópu­sam­bandið út­hlutaði til Íslend­inga, héld­ust óbreytt­ar á grund­velli sögu­legr­ar veiðireynslu.

AFP
Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, og Stefan Füle, stækkunarstjóri Evrópusambandsins.
Össur Skarp­héðins­son, ut­an­rík­is­ráðherra, og Stef­an Füle, stækk­un­ar­stjóri Evr­ópu­sam­bands­ins. mbl.is
mbl.is