Forsætisráðherra djúpt snortinn

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra.
Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Það er alveg ljóst að sögur þessara barna og ungmenna verða okkur mikil hvatning, sem sitjum við ríkisstjórnarborðið, að vinna að þessum málum,“ segir Jóhanna Sigurðardóttir sem ásamt öðrum ráðherrum átti fund í dag með hópi ungmenna sem deildu með þeim reynslu sinni af kynferðislegu ofbeldi.

Heyra mátti á ráðherrum í dag að þeir voru djúpt snortnir af opinskáum frásögnum ungmennanna sem UNICEF skipaði í sérfræðihóp barna sem orðið hafa fyrir kynferðislegu ofbeldi. Um óvenjulegan fund var að ræða í dag þar sem ungmennin greindu ráðherrunum frá sinni reynslu af kynferðisofbeldi og sögu frá sínum tillögum til úrbóta í kerfinu.  

Jafnmörg börn stigið fram og allt síðasta ár

„Ég held það sé alveg sama hversu þykkar skýrslurnar eru og stórar, maður hefur aldrei upplifað eins nána snertingu við þetta vandamál þegar þessi börn sem orðið hafa fyrir kynferðislegu ofbeldi sýndu það hugrekki að opna sig hér fyrir okkur ráðamönnum og segja okkur sína sögu. Sögu sem var mjög átakanleg og sem maður mun geyma með sér alla tíð,“ sagði forsætisráðherra eftir fundinn.

Hún vék að þeirri vakningu sem orðið hefði í þjóðfélaginu um ofbeldi gegn börnum og fagnaði því að í kjölfar mikillar fjölmiðlaumfjöllunar hafi á fyrstu 2 mánuðum þessa árs stigið fram jafnmörg börn og unglingar til að segja frá eins og á öllu síðasta ári.

Líst vel á ofbeldisvarnarráð

Hún þakkaði einnig UNICEF fyrir þeirra framlag til málaflokksins með nýrri skýrslu um ofbeldi gegn börnum á Íslandi. „Auðvitað hefur ýmislegt verið gert og núna er að störfum samráðshópur nokkurra ráðuneyta sem vinnur að samhæfingu og skilvirkum aðgerðum til að bæta stöðu barna sem hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi.“

Samráðshópur þessi mun að sögn Jóhönnu skila niðurstöðum til ríkisstjórnarinnar fyrir marslok og þar hafa m.a. verið teknar til umfjöllunar tillögur sem fram koma hjá UNICEF varðandi þessi mál. Nefndi Jóhanna þar sérstaklega hugmyndir um stofnun s.k. ofbeldisvarnarráðs til að vinna að forvarnarstarfi, og sagði ríkisstjórnina telja þá hugmynd mjög athyglisverða.

Hún sagðist vona að starf samráðshópsins skilaði sér í kröftugum aðgerðum. „Það er alveg ljóst í mínum huga að samfélagið skuldar þeim börnum og ungmennum mjög mikið sem hafa burðast með þetta í mörg ár án þess að geta opnað sig,“ sagði Jóhanna.

mbl.is