Hefði ekki getað svipt sig lífi

Faðir mannsins, sem fannst látinn í klefa sínum í Tihar fangelsinu á Indlandi í morgun, segir að honum hafi verið nauðgað af samföngum sínum. Þá segir hann að honum hafi verið líkamlega ómögulegt að hengja sig af sjálfsdáðum þar sem hann hafi verið einhentur eftir umferðarslys.

„Hann hefði ekki getað svipt sig lífi með bara annarri hönd,“ segir Mange Lal Singh, faðir hins 34 ára gamla Ram Singh, í samtali við Times of India í dag. Móðir hans segir að hann hafi borið þess merki að hafa verið pyntaður eftir handtökuna. „Hann gerði mistök, hann viðurkenndi það fyrir okkur, en jafnvel guð fyrirgefur ein mistök. Hann fékk ekki einu sinni tækifæri til að iðrast,“ segir móðirin, Kalyani Devi.

Lögmaður Ram Singh fullyrðir sömuleiðis við Times of India að skjólstæðingur hans hafi ítrekað verið pyntaður og að ekkert styðji það að hann hafi framið sjálfsvíg. Fréttaritari BBC í Delhi segir málið hið vandræðalegasta fyrir stjórnvöld þar í landi. Innanríkisráðherra Indlands heitir því að málið verði rannsakað.

Ekill og faðir sem framdi hryllilega nauðgun

Ram Singh var eigandi rútunnar þar sem 23 ára konu var nauðgað af hópi manna og hún drepin 16. desember. Lögreglan sakaði hann um að vera forsprakki málsins en 5 til viðbótar eru einnig ákærðir, þ.á.m. yngri bróðir hans.

Þeir eru sagðir hafa ekið um Delhi og reynt að lokka fólk upp í rútuna undir þeim formerkjum að um almenningssamgöngur væri að ræða. Unga konan og unnusti hennar létu blekkjast og hún galt fyrir það með lífi sínu.

Nágrannar hans segja Ram Singh hafa verið drykkfelldan og gjarnan á að lenda í slagsmálum. Hann var ekill og lætur eftir sig ungan son. Faðir hans segir að hann hafi skammast sín fyrir ódæðið sem þeir frömdu þann 16. desember og verið reiðubúinn að vera dæmdur til refsingar.

Stærsta fangelsi í Suður-Asíu

Tihar fangelsið er hið stærsta í Suður-Asíu með yfir 12.000 fanga. Formlega er það þó aðeins ætlað fyrir helmingi færri, eða 6000 fanga. Yfirvöld segja að Tihar fangelsið séð það nútímalegasta og öruggasta á Indlandi. Það er m.a. búið öryggismyndavélum, búnaði sem truflar farsímabylgjur, líkamsskanna og málmleitarhliðum. Stjórn fangelsisins heitir öruggri fangavörslu en dauði mannsins hefur vakið upp spurningar.

Í janúar kvörtuðu verjendur fimmmenninganna, sem ákærðir eru vegna hópnauðgunarinnar, yfir því að skjólstæðingar þeirra hafi verið pyntaðir í fangelsinu. Talsmaður Tihar fangelsisins, Sunil Gupta, fullyrti þá við BBC að öryggi mannanna væri tryggt.

Gupta segir nú að Ram Singh hafi ekki sætt sérstöku eftirliti vegna sjálfsvíshættu. Hann hafi notað teppi úr klefa sínum til að hnýta reipi sem hann gat hengt sig með. 

Hvort tveggja sjálfsvíg og morð eru ekki fátíð í indverskum fangelsum, samkvæmt BBC. Alls dóu 1.436 fangar árið 2010, í 1.393 fangelsum. 92 dauðsfallanna voru af ónáttúrulegum orsökum, þar af féllu 68 fyrir eigin hendi en 12 fyrir hendi samfanga sinna. Á áratugnum frá 2000-2010 létu 10.000 fangar lífið í indverskum fangelsum. Tölur fyrir síðustu tvö ár liggja ekki fyrir.

mbl.is