Forsprakkinn í Nýju-Delí nauðguninni fannst látinn

Málið vakti mikla athygli víða um heim og beindi sjónum …
Málið vakti mikla athygli víða um heim og beindi sjónum að stöðu kvenna á Indlandi. AFP

Karlmaður, sem ákærður var fyrir að vera forsprakkinn í hópnauðgunarmáli í Nýju-Delí á Indlandi, þegar ungri konu var nauðgað af sex karlmönnum með þeim afleiðingum að hún lést af áverkum sínum, fannst látinn í fangaklefa sínum í morgun.

Fangelsisverðir í öryggisfangelsinu Tihar, þar sem maðurinn, Ram Singh, var vistaður, segja að hann hafi útbúið reipi úr klæðum sínum og síðan hengt sig. Foreldrar Singhs  segja að svo geti ekki verið, hann hafi sagt þeim að hann óttaðist um líf sitt.

Lögmaður Singhs tekur í sama streng og segir að dauða hans eigi að rannsaka sem morð.

Singh, sem starfaði sem strætisvagnabílstjóri, hafði, ásamt bróður sínum og vinum þeirra, ekið strætisvagninum um götur Nýju-Delí og reynt að ginna farþega upp í hann hið örlagaríka kvöld um miðjan desember. 

Konan sem varð fyrir árásinni var 23 ára gamall læknanemi. Hún lést vegna innvortis blæðinga sem hún hlaut í árásinni. Hún og vinur hennar höfðu farið í kvikmyndahús um kvöldið. Þau höfðu reynt að fá leiguvagn til að komast heim er að þeim ók strætisvagninn og þeim var boðið far.

Mennirnir í vagninum réðust svo að konunni og nauðguðu henni. Þeir notuðu m.a. ryðgaða járnstöng í árásinni. Þeir réðust einnig á vin hennar og misþyrmdu honum.

Singh hafði verið ákærður fyrir nauðgun, morð og mannrán, ásamt fjórum öðrum. Verði þeir fundnir sekir gætu þeir verið dæmdir til dauða. Sjötti maðurinn er undir lögaldri og fer fyrir unglingadómstól þar sem hámarksrefsingin er þrjú ár.

mbl.is