Tvö skip eru núna við dýpkun í Landeyjahöfn. Þórhildur Elín Elínardóttir, upplýsingafulltrúi Siglingastofnunar, á ekki von á að Herjólfur geti farið að nota höfnina í þessari viku.
Herjólfur hefur ekki siglt í Landeyjahöfn í fjóra mánuði, en ferjan rak skrúfuna utan í bryggjuna í slæmu veðri í nóvember. Herjólfur hefur síðan siglt til Þorlákshafnar.
Tvö dýpkunarskip í eigu Björgunar voru í dag við dýpkun við Landeyjahöfn. Þetta eru Perla og Sóley. Dísa (sem áður hét Skandia) á einnig að vera við dýpkun í höfninni, en smávægileg bilun varð til þess að skipið gat lítið dýpkað í dag. Verið er að gera við skipið í Vestmannaeyjahöfn.
Þórhildur segir að góðar aðstæður hafi verið til dýpkunar í dag og horfur í þessari viku séu þokkalegar. Hún segir að til að gera höfnina færa þurfi nokkra góða daga í röð og hún á ekki von á að Herjólfur geti farið að sigla í höfnina í þessari viku.
Verið er að mæla dýpi í Landeyjahöfn í dag. Þórhildur segir að aðstæður í höfninni séu ekki ósvipaðar þeim sem búast má við á þessum tíma.