Lík strætisvagnabílstjórans í Nýju-Delí á Indlandi, eins þeirra sem ákærðir voru fyrir hópnauðgun á ungri konu og misþyrmingar sem leiddu til dauða hennar, hefur verið krufið og er niðurstöðu þess að vænta í dag. Maðurinn er talinn hafa verið forsprakki hóps sex karla sem misþyrmdu konunni.
Lík mannsins, Ram Singh, fannst í gærmorgun í klefa hans í Tihar öryggisfangelsinu í Nýju-Delí, þar sem hann var vistaður á meðan á réttarhöldunum yfir honum, ásamt fjórum öðrum karlmönnum stóð, en einn til viðbótar fer fyrir unglingadómstól vegna ungs aldurs.
Fangelsisverðir segja hann hafa hengt sig, en ættingjar hans segja það óhugsandi og segja að um morð sé að ræða og að hans hafi ekki verið gætt sem skyldi.
Að auki hefur lögmaður hans bent á að hann hafi verið bæklaður á hendi og því hafi hann ekki hafa getað hengt sig.
Innanríkisráðherra Indlands, Sushilkumar Shinde, segir augljóst að mikil mistök hafi verið gerð við gæslu mannsins.