„Við fórum fyrst í byrjun mars en urðum frá að hverfa. Þá vorum við búin að dæla 7.000 rúmmetrum. Núna erum við búin að dæla síðan á mánudagsmorgunn í síðustu viku á milli 90-95.000 rúmmetrum,“ segir Gunnlaugur Kristjánsson hjá Björgun ehf. sem annars sanddælingar í og við Landeyjahöfn.
Herjólfur siglir aftur í höfnina á morgun eftir fjögurra mánaða hlé líkt og mbl.is sagði frá fyrr í kvöld, en höfnin hefur verið of grunn til þess að óhætt væri að sigla skipinu þar að landi.
„Við erum komin í um 100.000 rúmmetra síðan við byrjuðum að dæla í byrjun mars - þar af núna í vikunni eitthvað yfir 90.000 rúmmetra. Við vorum með þrjú skip meðan við vorum að dæla í rifinu en síðan Perlu og Dísu eftir það,“ segir Gunnlaugur. Ennþá sé verið að dæla.
-Hvert er efninu dælt?
„Þessu er siglt út fyrir - út fyrir rifið þar sem að eru austur/vestur straumar.“
-Það er þá engu dælt upp neins staðar?
„Nei allt losað í sjó.“
-Hvað eruð þið þá búin að taka mikið úr höfninni sjálfri heldur þú?
„Úr höfninni sjálfri eitthvað í kringum 65.000 rúmmetra og ekki komnir í fullt dýpi ennþá en þó þannig að það er hægt að sigla.“
-Hvað eigið þið að fara djúpt?
„Það er misjafnt eftir svæðum í höfninni. Það er frá fimm og hálfum og upp í sjö metra.“
-Þið klárið það á næstu vikum?
„Eftir því sem færi gefst, en ég held að Herjólfur ætli að sigla á morgun. Það er orðið fært.“
Gunnlaugur segir að síðan farið var að dæla í Landeyjahöfn hafi afköstin aldrei verið jafnmikil og í síðustu viku.
„Til að setja þetta í samhengi þá var reiknað með, þegar var verið að opna höfnina fyrst og fjaran var óunnin algjörlega, að það þyrfti að fjarlægja þarna 180.000 rúmmetra. Í það verk höfðum við þrjá mánuði. Þetta er meira en helmingurinn af því og það erum við búin að klára á sjö dögum,“ segir Gunnlaugur.