Fjórir nauðguðu og tveir horfðu á

Sex indverskir karlmenn, sem ýmist eru sakaðir um að hafa nauðgað svissneskri konu sem var á hjólreiðaferðalagi á Indlandi á föstudaginn, eða að hafa horft á glæpinn, munu koma fyrir rétt í dag. Mennirnir náðust fljótlega eftir að tilkynnt var um glæpinn og indverska lögreglan segir þá hafa játað verknaðinn.

Fjórir mannanna eru sakaðir um að hafa nauðgað konunni og tveir þeirra fyrir að hafa horft á.

Farið verður fram á gæsluvarðhald yfir mönnunum. Konan var á ferð um Indland ásamt eiginmanni sínum, en mennirnir bundu hann fastann á meðan þeir misþyrmdu konunni.

Auk nauðgunarinnar eru þeir ákærðir fyrir þjófnað, en þeir stálu fartölvu, farsíma og nokkru fé frá fólkinu sem hafðist við í tjaldi í skóglendi í Madhya Pradesh héraði.

Talið er að mennirnir séu allir bændur og að þeir séu allir á aldrinum 20-25 ára. Þeir eru búsettir í þorpi skammt frá árásarstaðnum.

mbl.is