Ferðakonur á Indlandi eru órólegar eftir árás á svissneska konu og tilraun til árásar á breska konu nýverið. Ferðamannaráð kalla eftir öflugri löggæslu og vernd fyrir ferðamenn.
Svissneskri konu, sem var á ferð um landið ásamt eiginmanni sínum, var nauðgað af hópi karlmanna síðastliðinn föstudag og þá slasaðist bresk kona á fæti er hún stökk fram af svölum á hótelherbergi sínu í Agra á Indlandi eftir að eigandi hótelsins hafði áreitt hana.
„Eftir allt sem hefur gengið á myndi ég ekki ferðast ein í norðurhluta landsins. Mér hefur fundist sem karlmennirnir þar séu árásargjarnari, þar er meiri fátækt og ferðamenn skera sig þar frekar úr,“ segir Louise Clatot, frönsk ferðakona, í samtali við fréttaveituna AFP.
Stjórnvöld hafa brugðist við endurteknu kynferðisofbeldi í landinu og samþykkti efri deild indverska þingsins í morgun frumvarp, sem kveður á um þyngri refsingar við nauðgunum og ýmsu kynferðislegu áreiti. Meðal þess sem frumvarpið kveður á um eru dauðarefsingar ef árás af kynferðislegum toga leiðir til dauða fórnarlambsins og a.m.k. 20 ára fangelsi vegna hópnauðgana.