Efri deild indverska þingsins samþykkti í morgun frumvarp, sem kveður á um harðari refsingar við nauðgunum og ýmsu kynferðislegu áreiti. Meðal þess sem frumvarpið kveður á um eru dauðarefsingar ef árás af kynferðislegum toga leiðir til dauða fórnarlambsins og a.m.k. 20 ára fangelsi vegna hópnauðgana.
Áður hafði neðri deild þingsins samþykkt frumvarpið.
Samkvæmt núgildandi lögum er refsing við nauðgun sjö til tíu ára fangelsisvist. Nýlegir atburðir á Indlandi, þar sem ung kona lést eftir hópnauðgun í strætisvagni og fleiri mál af áþekkum toga hafa vakið mikil viðbrögð í landinu og víða um heim og varpað ljósi á þær brotalamir sem eru í dómskerfinu þegar um kynferðisbrot er að ræða.
Í nýja frumvarpinu er einnig lagt til að refsingar verði við ofsóknum, káfi, sýruárásum og því að bera kynfæri sín á almannafæri.
Svissneskri konu, sem var á ferð um landið ásamt eiginmanni sínum, var nauðgað af hópi karlmanna síðastliðinn föstudag og þá slasaðist bresk kona á fæti er hún stökk fram af svölum á hótelherbergi sínu í Agra á Indlandi eftir að eigandi hótelsins hafði áreitt hana.