Nauðganir og orðspor Indlands

AFP

Ferðamenn á Indlandi sýna ýtrustu varkárni vegna hrottalegra nauðgana. Stjórnvöld segja ósanngjarna mynd hafa verið dregna upp, en aðrir benda á bresti í indverskri menningu.

Judith Jensen er danskur ferðalangur á Indlandi. Hún hefur meðferðis langan gátlista um hvað beri að varast meðan á ferðalaginu stendur. Hún tekur ekki leigubíl úti á götu, hún forðast lítt þekkt hótel og fer ekki út eftir að dimma tekur. Ástæðan fyrir varkárni hennar er umfjöllun fjölmiðla um kynferðisglæpi í landinu.

„Ég hef lesið og heyrt svo mikið um nauðganir á Indlandi að ég finn fyrir stöðugri hættu,“ sagði Jensen, sem er um fertugt, í samtali við fréttastofuna AFP.

Ótrúlega Indland

Jensen sagðist hafa ferðast um suðurhluta Indlands áhyggjulaus með bakpoka fyrir áratug. Nú var hún með dóttur sinni og sagði að maðurinn hennar sendi sér mörg smáskilaboð á dag til að athuga hvort ekki væri allt með felldu.

Indverjar hafa gert mikið til að laða ferðamenn til landsins undanfarin ár undir kjörorðinu Ótrúlega Indland með góðum árangri. Nú koma um 6,6 milljón ferðalangar til landsins árlega. Nú fer hins vegar sú tilfinning vaxandi að Indland sé einfaldlega ekki öruggur ferðamannastaður, sérstaklega ekki fyrir konur.

Í desember lést indverskur námsmaður eftir að hópur manna réðst á hana í strætisvagni og nauðgaði. Árásin vakti gríðarlega reiði í landinu og vakti athygli á því hvað kynferðisofbeldi er algengt á Indlandi. Í kjölfarið hafa árásir á útlendinga í landinu bætt gráu ofan á svart.

Á föstudag fyrir viku réðst hópur manna á svissneska konu, sem var á hjólreiðaferðalagi með manni sínum, og nauðgaði henni. Maðurinn hennar var bundinn og eigum þeirra stolið.

Tilfellin eru fleiri. Suðurkóreskur námsmaður sagði að eigandi hótels, sem hún dvaldi á, hefði byrlað sér eitur og nauðgað sér í janúar. Kínversk kona, sem var við störf í Gurgaon í nágrenni Nýju Delhí, sagði að kunningi sinn hefði nauðgað sér í febrúar.

Indversk stjórnvöld segja ástæðulaust að óttast og benda á að útlendingar séu fórnarlömb glæpa um allan heim. Þorri ferðamanna á Indlandi lendi ekki í neinum uppákomum.

Stjórnvöld víða um heim ráðleggja hins vegar ferðalöngum að ferðast með gát. Svissnesk stjórnvöld höfðu fyrir árásina á svissnesku hjónin gefið út yfirlýsingu þar sem körlum og konum er ráðlagt að ferðast í hópum um Indland og nýta þjónustu leiðsögumanna.

Á vefsíðu bandaríska utanríkisráðuneytisins er konum ráðlagt að „gæta ýtrustu varkarni í öryggismálum“ og „forðast að ferðast einar í leigubílum, sérstaklega að kvöldlagi“.

Landlægt ofbeldi

Indversk stjórnvöld reyna að slá á þessa umræðu og segja að hún sé ósanngjörn. Í landinu fer hins vegar nú fram umræða um viðhorf til kvenna. Indverjar slái sér iðulega á brjóst fyrir að hafa kosið konu, Indiru Gandhi, í stól forsætisráðherra 1966 og að konur séu víða í áhrifastöðum ráðherra auk þess að vera áhrifamikilir fræðimenn, íþróttamenn og rithöfundar.

Þessi tákn feli hins vegar „landlægt ofbeldi“ sem sé „rótgróið í indverskri menningu“ skrifar Sunny Hundal í The Guardian. Raunin sé sú að á Indlandi sé hefð fyrir því að ala stúlkur upp í því skyni að þær verði góðar eiginkonur, ekki sjálfstæðar konur á framabraut. Strákar geta valsað um, en stúlkur eiga ekki að kalla skömm yfir fjölskylduna.

Undanfarið hafa indverskar konur lýst því hvernig þær verði fyrir ágangi karla á almannafæri. Í indverskum kvikmyndum verða konur ítrekað fyrir áreitni og átroðningi. Hundal segir að skilaboðin virðist vera þau að áreitnin borgi sig, á endanum muni konan segja já.

Indversku samtökin Kosningavaktin fóru yfir gögn, sem frambjóðendur afhentu kjörstjórnum á Indlandi. Helstu flokkar landsins voru með 27 frambjóðendur á listum, sem ákærðir höfðu verið fyrir nauðgun, og 260 frambjóðendur, sem kærðir höfðu verið fyrir glæpi gegn konum, allt frá árásum til áreitni, á undanförnum fimm árum. Það er kannski ekki að furða að stjórnmálamenn landsins skuli liggja undir ámæli fyrir að taka ofbeldi gegn konum ekki nógu alvarlega.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: