Sýru skvett yfir fjórar systur

Sonali Mukherjee er 27 ára indversk kona. Þrír skólabræður hennar …
Sonali Mukherjee er 27 ára indversk kona. Þrír skólabræður hennar helltu yfir hana sýru þegar hún hafnaði viðreynslu þeirra. AFP

Fjórar systur eru með alvarleg brunasár eftir sýruárás héraðinu Uttar Pradesh á Indlandi. Lögreglan segir árásina birtingarmynd vaxandi vanda í Suður-Asíu. Systurnar, sem eru á aldrinum 19 til 24 ára voru á leið heim til sín á þriðjudagskvöld þegar tveir karlmenn á mótorhjóli skvettu yfir þær sýru.

Rannsóknarlögreglumaðurinn Abdul Hammed segir að systurnar hafi verið samferða á leið heim til sín að loknum skóladegi þegar mennirni tveir komu á hjólinu upp að þeim, hrópuðu að þeim ókvæðisorðum og skvettu sýru yfir þær allar. Eldri systurnar þrjár eru allar kennarar í skólanum en sú yngsta er nemandi þar.

Að sögn lögreglu hlaut yngsta systirin þriðja stigs brunasár og var hún flutt með hraði á sjúkrahús í höfuðborginni Delhi. Enginn hefur verið handtekinn vegna málsins og tilefni árásarinnar er óljóst.

Kynbundið ofbeldi er skyndilega í kastljósinu á Indlandi eftir að athygli umheimsins var náð þegar ungur læknanemi lét lífið eftir grófa hópnauðgun í desember 2012. Vegna vaxandi reiði almennings brást þingið við með því að herða löggjöfina um kynferðisbrot. Hámarksfangelsidómur fyrir hópnauðgun er nú tvöfalt lengri en var, eða 20 ár. 

Þingmenn greiddu hins vegar atkvæði gegn tillögu um að þyngja refsingar vegna sýruárása. Viðurlögin eru 8-12 ára fangelsi, eftir því hversu alvarleg meiðsli fórnarlambið hlýtur. Baráttuhópurinn Stop Acid Attacks sakar stjórnvöld um að hundsa vaxandi vanda.

Konur verða fyrst og fremst fyrir sýrárásum í Suður-Asíu, oftar en ekki af hálfu karla sem þær hafa hafnað að giftast. Stop Acid Attacs kallar eftir lögbanni við sölu á sýru sem kallast Tezaab og er ætluð til að hreinsa ryð af málmi, en er iðulega notuð gegn konum.

„Sýra er nú orðin ódýrasta og áhrifaríkasta verkfærið fyrir karla  til að ráðast á konur á Indlandi,“ hefur Afp eftir baráttukonunni Archana Kumari, sem sjálf varð fyrir sýruárás. „Hvers vegna stöðvar ríkið ekki sölu á sýru? Hvers vegna styðja stjórnvöld vopn sem getur drepið konu eða eyðilagt líf hennar?“

Samkvæmt bresku góðgerðarsamtökunum Acid Survivors Trust International eru um 1.500 sýrárásir skrásettar á heimsvísu á ári hverju. Mörg fórnarlöm slíkra árása kæra hins vegar aldrei heldur þjást í hljóði.

Naziran Bibi frá Pakistan bíður eftir augnaðgerð í kjölfar sýruárásar.
Naziran Bibi frá Pakistan bíður eftir augnaðgerð í kjölfar sýruárásar. AFP
mbl.is