Stúlka berst fyrir lífi sínu eftir nauðgun

Kynbundið ofbeldi er algengt á Indlandi og því hefur verið …
Kynbundið ofbeldi er algengt á Indlandi og því hefur verið mótmælt harðlega undanfarna mánuði. AFP

Fimm ára stúlka á Indlandi berst fyrir lífi sínu en henni var rænt og nauðgað á hrikalegan hátt.

Stúlkunni var rænt í Delí á mánudag og henni haldið í læstu herbergi í tvo sólarhringa, að sögn lögreglunnar. 

Lögreglan skráði málið fyrst sem mannrán en nú er hafin rannsókn á nauðgun og manndrápstilraun, að sögn talsmanns lögreglunnar. Leitað er að nágranna stúlkunnar en hann er grunaður um verknaðinn.

Stúlkan er á gjörgæslu og hefur verið þar frá því á miðvikudag. Ástand hennar er alvarlegt.

Læknir á sjúkrahúsinu segir að stúlkan hafi verið í miklu áfalli er hún var færð á spítalann. Hún var með sár og mar á andliti, hálsi og brjóstkassa.

Þá staðfestir læknir að kynfæri stúlkunnar voru sködduð og svo virðist sem hlutum hafi verið þröngvað inn í leggöng hennar. Hún er af þessum sökum með innvortis blæðingar og sýkingar.

Læknirinn segir að stúlkan sé í lífshættu.

Stúlkan fannst er vegfarandi heyrði hana gráta.

mbl.is