Flest bendir til þess að Finnar taki þátt í samnorrænu loftrýmiseftirliti við Ísland á næsta ári ásamt Svíum, Dönum og Norðmönnum en gert er ráð fyrir að óvopnaðar orrustuþotur frá þjóðunum fjórum sjái um eftirlitið.
Fram kemur á fréttavefnum Yle.fi í gær að ríkisstjórn Finnlands hafi þegar samþykkt þátttöku í verkefninu sem og utanríkis- og öryggismálanefnd stjórnarinnar. Skýrsla utanríkisráðuneytisins um málið hafi verið rædd í utanríkismálanefnd finnska þingsins og fengið ítarlegar umræður.
Þá segir að endanleg ákvörðun verði tekin af varnamálaráðuneytinu í samræmi við afstöðu þingsins til málsins og vísað í yfirlýsingu frá ríkisstjórninni.