Handtekinn vegna nauðgunar 5 ára telpu

Litla stúlkan sem varð fyrir nauðgun og líkamsmeiðingum í Indlandi í vikunni liggur enn á sjúkrahúsi en er með meðvitund og ástand hennar stöðugt að sögn lækna í Nýju-Delhi í dag. Mikil reiði ríkir vegna árásarinnar og hafa fjölmargir mótmælt ofbeldinu á götum úti.

Snemma í morgun handtók lögregla karlmann sem grunaður er um aðildr að árásinni. Hann er sagður vera 22 ára starfsmaður fataverksmiðju og hefur hann verið kærður fyrir nauðgun, tilraun til morðs og ólöglega gíslingu. „Þarna var skrýmsli að verki,“ sagði lögregluforinginn Ravindar Kumar í samtali við AFP í morgun.

Stúlkunni, sem er aðeins 5 ára, var rænt á mánudag og henni haldið fanginni í tvo sólarhringa og henni misþyrmt. Hún var færð á sjúkrahús með áverka í andliti, hálsi og á brjóstkassa og með sködduð kynfæri. Virðist sem einhverju hafi verið þröngvað inn í leggöng hennar og valdið innvortis blæðingum og sýkingu.

Læknirinn D.K. Sharma annast barnið og segir ástand hennar nokkuð stöðugt. Hins vegar sé líklegt að hún þurfi að gangast undir skurðaðgerð vegna áverkanna á kynfærum hennar.

Hinn handtekni heitir Manoj Kumar. Indverskir fjölmiðlar segja að hann hafi unnið sem þjónn á heimili stúlkunnar en hann lagði á flótta eftir að stúlkan fannst illa á sig komin í vegkanti.

Árásin bætti enn olíu á eld þeirrar miklu reiði sem nú ríkir í indversku samfélagi vegna viðvarandi ofbeldis sem konur og stúlkur í landinu mega sæta.

Stúlka berst fyrir lífi sínu eftir nauðgun

mbl.is