Grænlendingum hefur verið heimilað að landa tólf þúsund tonnum af makríl hér á landi í sumar.
Þá hefur verið ákveðið að Íslendingar muni aðstoða við rannsóknir á makríl og fer hafrannsóknaskipið Árni Friðriksson inn í grænlenska lögsögu í sameiginlegum togleiðangri Íslendinga, Norðmanna og Færeyinga í sumar.
Með þessu ættu að fást betri upplýsingar um útbreiðslusvæði makríls og hvort og þá hversu mikið af makríl gengur inn í grænlenska lögsögu.
Grænlendingar ákváðu fyrir nokkru að heimila veiðar á fimmtán þúsund tonnum af makríl í ár. Þeir fóru jafnframt fram á að mega landa þessum afla á Íslandi þar sem aðstaða er takmörkuð á austurströnd Grænlands til að taka á móti aflanum.