Fjögurra ára gömul indversk stúlka sem hefur barist fyrir lífi sínu í tvær vikur eftir að hafa verið nauðgað hrottalega er látin. Samkvæmt upplýsingum frá Care sjúkrahúsinu í Nagpur lést stúlkan í gærkvöldi en hún fannst meðvitundarlaus á bóndabýli þann 18. apríl sl.
Samkvæmt upplýsingum frá sjúkrahúsinu gaf hjarta stúlkunnar sig í gærkvöldi eftir að ástand hennar hafði versnað til muna í gærmorgun.
Það voru foreldrar hennar sem fundu hana á bóndabænum, sólarhring eftir að 35 ára gamall maður nauðgaði henni í bænum Ghansour. Eftir ofbeldið fór hann með hana upp í sveit og henti henni eins og hverju öðru rusli, samkvæmt frétt Press Trust of India.
Hún var fyrst flutt á sjúkrahús í nágrenninu en tveimur dögum síðar var hún flutt á sjúkrahús í Nagpur. Lögregla hefur handtekið þann sem er grunaður er um að hafa framið ódæðið.
Þann 15. apríl var fimm ára gamalli stúlku rænt og henni nauðgað hrottalega í tvo sólarhringa af tveimur mönnum í höfuðborg Indlands, Nýju Delí, en það tókst að bjarga lífi hennar. Er hún á hægum batavegi.