Yfir 400 umsóknir hafa borist Fiskistofu um strandveiðileyfi, en veiðarnar mega hefjast í dag. Meðal þeirra sem leggja úr höfn árdegis ef veður leyfir er Ólafur Helgi Ólafsson, sem rær á báti sínum Glað SH 267 frá Ólafsvík.
Hann segir að mikill fjöldi muni stunda strandveiðarnar frá Snæfellsnesi og trillukalla annars staðar frá hafi drifið að síðustu daga. „Það er svo mikill fjöldi báta hér á vestursvæðinu að við fáum ekki marga daga í hverjum mánuði og mér finnst að það mætti gjarnan breyta þessari skiptingu eitthvað,“ segir Ólafur.
Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag segir Ólafur afkomuna þó ekkert til að hrópa húrra fyrir. „Það verður ekki mikið eftir því það fer ótrúlega mikið í sjálft sig, alls konar gjöld, eftirlit og búnað. Ég skil ekki hvernig menn fara að þessu sem þurfa að byrja frá grunni og kaupa bát og búnað. Startið í þessu er ekkert sem venjulegur maður ræður við, til þess að geta byrjað frá núlli þurfa menn að sitja á peningahrúgu.“