Bresk stjórnvöld ætla að óska eftir upplýsingum og útskýringa frá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins á fundi sjávarútvegsráðherra sambandsins í næstu viku um það hvað hún hyggst fyrir varðandi mögulegar refsiaðgerðir gegn Íslendingum og Færeyingum vegna makríldeilunnar.
Þetta kemur fram á fréttavefnum Thefishsite.com í dag en fundur ráðherraráðsins fer fram 13.-14. maí næstkomandi og mun Maria Damanaki, sjávarútvegsstjóri Evrópusambandsins, sitja hann sem fulltrúi framkvæmdastjórnarinnar.
Fundurinn mun að öðru leyti snúast um mögulegar breytingar á sameiginlegri sjávarútvegsstefnu sambandsins. Hann fer fram undir forsæti Simons Coveney, sjávarútvegsráðherra Írlands, en Írar fara með forsætið innan Evrópusambandsins þar til í lok júní.