„Tilkynning barst um ólæti og barsmíðar“

„Tilkynning barst um ólæti og barsmíðar.“ Þannig hóf lögreglumaður skýrslugjöf fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur árið 2012, en hann var kallaður til að bera vitni í máli sem höfðað var gegn manni sem réðist á fyrrverandi sambýliskonu sína.

Maðurinn var ákærður fyrir að ráðast þrívegis á konuna. Hann var ákærður fyrir að hafa slegið hana hnefahöggi í magann í mars 2010, fyrir að hafa otað að henni hníf og slegið hana ítrekað í andlitið í maí sama ár og fyrir að hafa sparkað í hana og slegið hana einu sinni í andlitið með flötum lófa í desember sama ár.

Maðurinn fékk sex mánaða dóm, þar af þrjá mánuði skilorðsbundna.

Lögreglan fær tilkynningar um heimilisofbeldi um hverja helgi

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fær um hverja einustu helgi tilkynningar um heimilisofbeldi.  Málin eru misalvarleg og stundum þarf lögreglan að hafa afskipti af sömu heimilunum aftur og aftur.

Heimilisofbeldismál á höfuðborgarsvæðinu eru rannsökuð af sérstakri deild lögreglunnar sem rannsakar kynferðisbrot, líkamsárásir og önnur ofbeldismál.

Á síðasta ári fékk lögreglan 1.294 tilkynningar um heimilisófrið, en þar af voru 327 mál skilgreind sem ofbeldismál, en 967 skilgreind sem ágreiningsmál. Fjöldi þessara mála hefur lítið breyst síðustu fjögur ár, en flest voru þau 2007 eða 1.388. Málum sem lögreglan skilgreinir sem ofbeldi inn á heimilum hefur hins vegar fjölgað ár frá ári síðustu fimm árin og hafa aldrei verið fleiri en í fyrra.

Ríkislögreglustjóri setti árið 2005 verklagsreglur um meðferð og skráningu heimilisofbeldismála. Forsenda fyrir skráningu máls í verkefnaflokkinn heimilisofbeldi er að gerandi og þolandi séu nákomnir, þ.e. skyldir eða tengdir. Ekki er skilyrði að ofbeldið eigi sér stað innan veggja heimilis.

Heimilisofbeldismál eru misalvarleg. Stundum snýst tilkynning til lögreglu um hávaða og læti. Í öðrum tilvikum er um að ræða líkamsmeiðingar eða líkamsárásir. Slík mál eru rannsökuð af lögreglu, annað hvort vegna þess að sá sem verður fyrir ofbeldi kærir eða að lögregla telur að málin séu þess eðlis að það þurfi að rannsaka þau. Í minniháttar málum lætur lögregla nægja að gera skýrslu um mál. Slík skýrsla getur haft þýðingu ef sami aðili brýtur af sér aftur síðar.

Fæst mál enda með ákæru

Karl Ingi Vilbergsson, lögfræðingur hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir að mikill minnihluti þeirra mála sem eru rannsökuð leiði til ákæru. Ýmsar ástæður séu fyrir því að ekki séu gefnar út ákærur. Í fyrsta lagi þurfi að vera fyrir hendi sannanir sem leiði til þess að sennilegt sé að ákærði verði sakfelldur. Í öðru lagi dragi brotaþoli kæruna stundum til baka. Í þriðja lagi fari mál stundum í sáttameðferð, sem þýði að sambúðarfólk sættist.

Karl Ingi tekur fram að ef lögregla er kölluð á heimili þar sem karlmaður hefur beitt konu ofbeldi, hún er með sýnilega ákverka, fær áverkavottorð og leggur fram kæru þá megi telja yfirgnæfandi líkur á því að maðurinn verði ákærður. Málin séu hins vegar ekki alltaf svona einföld.

Beitt líkamlegu, andlegu og kynferðislegu ofbeldi en vildi ekki kæra

Oft gerist að lögregla færi tilkynningar um ofbeldi inn á heimili, en sá sem varð fyrir ofbeldinu er hins vegar ekki tilbúinn til leggja fram kæru og ekki tilbúinn til að aðstoða lögreglu við rannsókn málsins. Ástæðan getur verið að viðkomandi telur sér ekki fært að slíta sambúðinni; vill halda heimilinu saman, eða hreinlega af ótta við ofbeldismanninn.

Lögreglan lætur ekki endilega málin falla niður þó engin kæra berist. Það átti t.d. við í alvarlegu heimilisofbeldismáli sem dæmt var í árið 2009.

Málsatvik eru þau að lögregla fékk í september 2007 tilkynningu frá manni um slagsmál í húsi nágranna síns. Þegar lögreglan mætti á staðinn var maður í átökum við föður sinn. Faðirinn hafði farið að kanna stöðuna á heimili sonarins þegar hann varð þess áskynja að hann væri að ganga í skrokk á sambýliskonu sinni.

Lögreglumenn fundu konuna í svefnherbergi þar sem hún lá undir sæng. Hún var slösuð og rennblaut, en maðurinn hafði sprautað köldu vatni yfir hana eftir að hún hafði rotast í átökunum. Konan vildi lítið tjá sig við lögreglu og ekki leggja fram kæru. Hún hélt áfram að búa með manninum og hann hélt áfram að beita hana ofbeldi.

Lögreglan hélt engu að síður áfram að rannsaka málið og í janúar 2008 gaf hún út ákæru á hendur manninum. Þegar konunni varð ljóst að maðurinn yrði dreginn fyrir dóm ákvað hún að kæra hann og gefa skýrslu hjá lögreglu. Í framhaldinu kom í ljós að maðurinn hafði beitt konuna alvarlegu kynferðislegu ofbeldi. Hann hafði þvingað hana til kynferðismaka með ókunnugum mönnum og tekið myndir þeim. Hann fékk konuna til að taka þátt í þessu með hótunum og ofbeldi.

Maðurinn var dæmdur í átta ára fangelsi.

Ofbeldismanni vísað á brott af heimili

Þó nokkur dæmi eru um að lögreglan sé kölluð til inn á sömu heimilin aftur og aftur. Í slíkum tilvikum hefur lögreglan það úrræði að setja nálgunarbann á ofbeldismanninn. Samkvæmt svari velferðarráðherra við fyrirspurn Eyglóar Harðardóttur alþingismanns hefur lögreglan átta sinnum sett á nálgunarbann eða beitt brottvísun af heimili síðan lög um brottvísun voru sett árið 2011. Þegar brotaþoli leggur fram ósk um nálgunarbann hefur lögregla einn sólarhring til að taka ákvörðun um hvort slíkt bann er sett á. Málið er síðan lagt fyrir dómara sem ákveður hvort nálgunarbannið er staðfest. Nálgunarbann má setja til allt að eins árs.

Tilgangurinn með lagaákvæði um brottvísun brotamanns af heimili er sú að eðlilegra sé að ofbeldismaðurinn flytji af heimilinu frekar en að þolandinn þurfi að flýja að heiman. Ákveða má brottvísun brotaþola af heimili í allt að fjórar vikur, en heimilt er að framlengja hana með nýrri ákvörðun. Frá því lögin voru sett hefur þessu úrræði aðeins verið beitt einu sinni.

Áður en nálgunarbann kemur til hefur ýmislegt gengið á í samskiptum fólks. Lögreglan hefur oftar en einu sinni haft afskipti af brotamanni og sýnt þykir að hann láti ekki af hegðun sinni nema brugðist sé við.

Heimilt að þyngja refsingu beinist brot að fjölskyldu

Sum ofbeldismál enda með sáttameðferð. Sáttameðferð þýðir að gerandinn viðurkennir brot sitt, aðilar koma saman og undirrita sáttagjörð og í framhaldi af því eru málin látin niður falla. Sáttagjörðin getur falið í sér að gerandinn fellst á að bæta tjón, en það á yfirleitt ekki við þegar tjónið er á hlutum sem eru í sameiginlegri eigu hjóna. Málin eru skráð og ef gerandi brýtur aftur af sér er heimilt að taka málin upp að nýju og ákæra í þeim.

Refsiramminn fyrir „minniháttar ofbeldisbrot“ er eins árs fangelsi. Árið 2006 var gerð sú breyting á hegningarlögum að sett var inn í lögin ákvæði um að ef verknaður beinst að karli, konu eða barni sem eru nákomin geranda, og tengsl þeirra þykja hafa aukið á grófleika verknaðarins, skuli það leiða til refsiþyngingar. Brot sem flokkast undir minniháttar ofbeldisbrot fyrnast á tveimur árum.

Karl Ingi segir að lögreglan reyni að forðast að leiða börn fram sem vitni í heimilisofbeldismálum þegar um er að ræða foreldra barnanna. Samkvæmt lögum þurfa börn ekki að svara spurningum lögreglu um atriði sem varða sekt ættingja.

Erfitt getur verið að sanna andlegt ofbeldi

Heimilisofbeldi snýst ekki bara um líkamlegt ofbeldi. Mál þar sem um er að ræða andlegt ofbeldi geta líka verið alvarleg, en mál sem snúast eingöngu um andlegt ofbeldi rata hins vegar nánast aldrei inn í dómsali. Þar skiptir máli að erfitt getur verið að sanna sök þannig að líkur séu á sakfellingu. Slík mál snúast yfirleitt um samskipti tveggja einstaklinga og engin vitni eru til að styðja frásögn þess sem verður fyrir ofbeldinu. Lögreglan getur að vísu óskað eftir sálfræðilegu mati á meintum afleiðingum andlegs ofbeldis en það er fyrst og fremst gert þegar mál snýst líka um líkamlegt ofbeldi.

Það þarf að hafa í huga að saksóknari þarf í ákæru alltaf að vísa til lagagreina og í hegningarlögum er að finna ákvæði sem ná yfir andlegt ofbeldi. Það er refsivert að hafa í hótunum við fólk. Það varðar einnig refsingu að móðga eða smána maka sinn eða fyrrverandi maka, barn sitt eða annan mann sem er nákominn geranda. Skilyrði er að verknaður feli í sér stórfelldar ærumeiðingar.

mbl.is